Þetta segir Tim Coulson, prófessor í dýrafræði við Oxfordháskólann, sem veit meira en flestir um undarleg dýr sem ráfa hugsanlega um.
Í grein, sem hann skrifaði í The European, segir hann flest þau dýr, sem fólk telur að séu til án þess að hafa nokkrar sannanir, geti í raun ekki verið til, það sé útilokað út frá vísindalegum sjónarhóli.
Hann segir að á hinn bóginn séu „góðar líkur“ á að geimverur séu til.
„Alheimurinn er gríðarlega stór og við höfum bara kannað örlítið brot af honum,“ skrifaði hann og bætti við að ólíkt skógunum þar sem Stórfótur á að eiga heima, eða fjöllunum þar sem Jetíar eiga að halda til, þá höfum við bara rannsakað örsmátt horn þeirra staða þar sem geimverur gæti verið að finna.
Hann benti á að tilvist geimvera sé oft líkt við þjóðsagnadýr á jörðinni en líkurnar á að líf sé að finna á öðrum plánetum sé miklu meira en að þessi dýr séu til.
Coulson er talinn einn mesti sérfræðingur heimsins í líffræði og þróun, svo hann veit eitt og annað um lífverur.
Hvað varðar geimverur, þá er hann ekki sannfærður um að við munum finna þær. Hann bendir á að við höfum byrjað að senda útvarpsmerki út í geiminn fyrir 120 árum sem þýði að ef geimverur heyrðu þessar sendingar og svöruðu samstundis, þá hafi þær þurft að vera í innan við 60 ljósára fjarlægð til að við værum búin að heyra svar þeirra.
„Það eru um 3.000 stjörnur í innan við 60 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það hljómar kannski eins og margar, en það er það ekki,“ skrifaði hann.