Stefan Baldauf, 64 ára, og Philip Lawson, 63 ára, voru meðlimir í skipulögðum glæpasamtökum sem ætlaði að smygla hálfu tonni af MDMA, öðru nafni e-töflur, til Ástralíu. Áætlað söluverð taflnanna er sem svarar til 7,6 milljarða króna.
En hið fyrirhugaða smygl fór út um þúfur þegar samverkamaður þeirra, Danny Brown, sendi Baldauf ljósmynd af hundinum sínum, Bob. Á myndinni sést nafnskilti Bob og á því er símanúmer maka Brown. Það var þetta símanúmer sem kom lögreglunni á slóð smyglaranna.
Metro segir að breska lögreglan hafi komist yfir myndina og hafi þannig getað sannað aðild Brown að smyglinu. Hann sendi einnig mynd í gegnum EncroChat. Á henni sést spegilmynd hans í skilti á útidyrahurð.
Félagarnir földu töflurnar í gröfu sem átti að senda til Ástralíu. Þar átti að taka hana í sundur og koma töflunum í dreifingu. Breska lögreglan komst á snoðir um þetta og fann gröfuna í iðnaðarhúsnæði áður en hún var send af stað.
Brown, sem er 57 ára, var dæmdur í 28 ára fangelsi og til að greiða sem nemur 170 milljónum króna í sekt. Ef hann greiðir ekki innan þriggja mánaða, bætast 7 ár við fangelsisvistina.
Lawson var dæmdur í 23 ára fangelsi og til að greiða sem nemur 31 milljón króna í sekt. Ef hann greiðir ekki innan þriggja mánaða, þá bætast 3 ár við fangelsisvistina.
Brown var dæmdur í 26 ára fangelsi.