TT fréttastofan segir að á síðasta ári hafi 6.250 hælisleitendur fengið dvalarleyfi. Inni í þessari tölu eru hælisleitendur, kvótaflóttamenn og fjölskyldur þeirra. Í heildina sóttu 9.645 um hæli í Svíþjóð á síðasta eða 25% færri en árið á undan.
Johan Forssell, ráðherra innflytjendamála, sagði að fækkun dvalarleyfa og umsókna megi skýra með hertari reglum varðandi innflytjendur og að fréttir af þessum hertu reglum berist til útlanda. „Við höfum sagt skýrt og greinilega að við þurfum að draga úr straumi hælisleitenda og slík ummæli fréttast,“ sagði hann.
Svíar hertu reglur sínar á þessu sviði mjög eftir hinn mikla straum flóttamanna og förufólks til Evrópu 2015. Mjög margir þeirra héldu til Svíþjóðar.
Haustið 2022 voru reglurnar hertar enn frekar en TT segir að enn hafi ekki öll ákvæði nýju reglnanna verið virkjuð.
Sem dæmi um breytingarnar þá taka Svíar nú við 500 svokölluðu kvótaflóttamönnum á ári í stað 9.000 áður. Einnig hafa reglur um fjölskyldusameiningu verið hertar sem og kröfurnar til að geta fengið dvalarleyfi af mannúðarástæðum.