Það eru margar tegundir hreyfingar svo allir ættu að finna eitthvað sem hentar þeim. Margir kjósa að stunda hreyfinguna í líkamsræktarstöð en fyrir þá sem kjósa ekki þá leið þá getur verið fróðlegt að vita að mjög algeng hreyfing, sem er ókeypis, getur aukið fitubrennsluna.
Þetta eru göngutúrar.
Shane O´Mara, prófessor í hjartarannsóknum við Trinity College í Dublin, segir í hlaðvarpinu „Don´t Tell Me the Score“ af hverju fólk á að ganga meira. Daily Record skýrir frá þessu.
Hann bendir á að regluleg hreyfing, með lítilli ákefð, yfir daginn sé betri fyrir efnaskiptin en skammvinn hreyfing með mikilli ákefð.
Efnaskiptin eru það ferli í líkamanum sem halda þér á lífi og láta líffærin starfa eðlilega. Þetta ferli krefst orku og þeim mun hraðari sem efnaskiptin eru, þeim mun fleiri hitaeiningum brennir þú.
Göngutúrar eru auðvitað einföld og ókeypis leið til að hreyfa sig meira, léttast og verða heilbrigðari. Röskleg ganga hjálpar til við að byggja upp þol, brenna hitaeiningum og gera hjartað heilbrigðara. Það þarf ekki að ganga í margar klukkustundir á dag. Hröð ganga í 10 mínútur á dag hefur margvíslegan heilsufarslegan ávinning.