Ryk á heimilum er ekki bara ófögur sjón, það getur einnig haft heilsufarslegar afleiðingar, sérstaklega fyrir þá sem eru með ofnæmi og öndunarfærasjúkdóma.
Rykið kemur líklega víða að og það sem við tökum okkur fyrir hendur heima hjá okkur skiptir einnig máli. Þetta sagði Marla Mock, forstjóri þrifafyrirtækisins Molly Maid, í samtali við Southernliving.
Hún sagði að ryk samanstandi af blöndu af ögnum á borð við dauðar húðfrumur, hár, frjókornum og textíltrefjum.
Ef maður gerir hreint reglulega, þá hjálpar það auðvitað til við að halda rykinu niðri en það þarf samt sem áður meira til en tíða notkun afþurrkunarklútsins.
Á sumum heimilum kemur rykið hratt ef loftræstingin er léleg. Loftflæðið getur hjálpað til við að draga úr ryksöfnun. Mock ráðleggur fólki að opna glugga eða nota viftur en bendir einnig á að það þarf að hreinsa blöðin í viftunum svo þær dreifi ekki bara ryki.
Ytri þættir skipta einnig máli. Í hvert sinn sem við göngum inn í hús, fylgir ryk, frjókorn og mengun með á skónum okkar og fatnaði. Forstofan verður því að mikilvægri uppsprettu ryks.
Mock ráðleggur fólki því að fara ekki inn á skónum og nota dyramottu til að draga úr því magni agna sem berast inn í húsið.
Óþéttir gluggar og dyr geta einnig gert ryksöfnunina meiri því ryk kemst inn í húsið vegna þess að gluggarnir og dyrnar eru óþéttar.