Líkurnar á að fólk fái Parkinsons eru venjulega 2-5% en eru mun hærri ef það er saga um sjúkdóminn í fjölskyldunni.
Einkenni sjúkdómsins geta í undantekningartilfellum byrjað að láta kræla á sér á unglingsárunum.
Sjúkdómurinn, sem er nefndur eftir James Parkinson sem uppgötvaði hann 1817, brýtur niður taugar sem framleiða dópamín en það er afgerandi fyrir hreyfingu líkamans.
Það veldur vel þekktum einkennum á borð við skjálfta, stífleika og hægan gang. Parkinsons hefur einnig áhrif á taugaboðkerfið en það getur valdið ósamhæfðum hreyfingum og breytingu á vitsmunum og tilfinningum.
Ungt fólk getur fengið sjúkdóminn og geta einkennin þá verið óvenjulegri en hjá eldra fólki.
7 slík einkenni eru:
Svefnvandamál – Algengast er svefnleysi, fólk getur átt erfitt með að sofna, glímir við fótaóeirð og REM-svefnvanda.
Þunglyndi – Þetta er oft eitt fyrsta einkennið sem kemur fram og er talið merki um sjúkdóminn.
Skapsveiflur – Auk þunglyndis eru einkenni á borð við kvíða og sinnuleysi algeng. Þau geta dregið úr hvatningunni til að leita hjálpar.
Vitsmunalegar breytingar – Fólk, sem fær snemmbúinn Parkinsons, getur átt í erfiðleikum með að sinna fleiri en einu verkefni í einu. Önnur merki eru að hugsanagangurinn verður hægari, vandi varðandi einbeitingu, minnisvandamál og í sumum tilfellum elliglöp.
Skjálfti – Skjálftinn byrjar yfirleitt í höndunum en getur einnig byrjað í kjálkanum eða fótunum. Það einkennir þennan skjálfta að hann kemur fram þegar fólk er í hvíld.
Missir hreyfigetu – Fólk missir smám saman hæfileikann til að hreyfa sig ósjálfrátt og almennar hreyfingar verða hægari.
Þreyta – Fólk, sem er með snemmbúinn Parkinsons, finnst það sífellt þreytt, jafnvel þótt það hafi ekki reynt á sig.