Það er auðvitað hægt að taka mörg skref til að lækka blóðþrýstinginn en ein „falin“ venja getur hugsanlega hækkað blóðþrýstinginn án þess að þú takir eftir því.
Blóðþrýstingurinn er mælikvarði á hvernig blóðið rennur um æðarnar. Vandinn, sem getur komið upp, er að það rennur með of miklu afli og veldur þá þrýstingi á æðaveggina. Með tímanum getur þetta skaðað æðarnar sem eykur líkurnar á hjartaáfalli og blóðtappa. Góður blóðþrýstingur er undir 120/80 mm Hg en allt yfir 130/80 telst of hár þrýstingur.
Mikilvægasti vaninn sem þarf að láta af, ef blóðþrýstingurinn er of hár, er að borða mat sem inniheldur viðbætt natríum og mettaða fitu. Matur á veitingahúsum inniheldur einmitt oft þessi efni og það sama á við um ofurunnin matvæli.
Ofurunnin matvæli, til dæmis snakk, kex, sælgæti og gosdrykkir, innihalda oft mikið af natríum, sykri og rotvarnarefnum. Þessi efni geta haft neikvæð áhrif á heilsu okkar.
Dr. David L. Katz, læknir, segir að ofurunnin matvæli innihaldi efni sem hann myndi aldrei nota í eldhúsinu heima hjá sér, má þar nefna bragðaukandi efni og litarefni.
Þessi efni geta hækkað blóðþrýstinginn, sérstaklega natríumið í matvælunum en það hefur mikil áhrif á blóðþrýstinginn.
Það er auðvitað hægt að gera ákveðnar breytingar á lífsstíl sínum í því skyni að lækka blóðþrýstinginn.
Eldaðu matinn heima – Ef þú eldar matinn heima, þá hefur þú fulla stjórn á innihaldinu, til dæmis salti og sykri. Þetta þarf ekki alltaf að vera flókin matseld. Einfaldir réttir á borð við hafragraut og salat eru nú ekkert til að fúlsa við.
Hreyfðu þig – Regluleg hreyfing skiptir miklu máli þegar kemur að því að hafa stjórn á blóðþrýstingnum. Öll hreyfing, hvort sem það er garðvinna, hjólreiðar eða göngutúr, er af hinu góða.
Taktu á stressinu – Krónískt stress getur aukið hættuna á of háum blóðþrýstingi. Ef þú getur fundið leiðir til að draga úr stressinu, þá hjálpar það til við að halda blóðþrýstingnum niðri.