Sjúkdómurinn, sem gengur undir nafninu Marburg-veiran, veldur blæðandi veiruhitasótt en veiran sem veldur sjúkdómnum er af ætt þráðveira eins og ebólaveiran.
Nokkuð var fjallað um útbreiðslu sjúkdómsins í Rúanda á haustmánuðum og virðist hann nú hafa náð fótfestu Tansaníu. Dánartíðni af völdum sjúkdómsins er mjög há en ekkert bóluefni eða lyf er til gegn veirunni. Í Tansaníu hafa níu smit greinst og þar af hafa átta látist.
Líkt og ebólaveiran er Marburg-veiran ekki bráðsmitandi að því leyti að hún smitast ekki frá öndunarvegi. Hún smitast með snertingu við líkamsvessa frá veikum einstaklingi. Af þeim sökum eru einstaklingar sem starfa í heilbrigðisþjónustu útsettari fyrir veirunni en aðrir.
Einkenni sjúkdómsins eru hiti, vöðva- og beinverkir, uppköst og niðurgangur og blæðingar í húð og líffærum, til dæmis úr augum. Oftar en ekki draga veikindin fólk til dauða.
Fulltrúar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar eru komnir til Kagera-héraðs í Tansaníu þar sem öll smitin hafa greinst.
Marburg-veiran dregur nafn sitt af samnefndri borg í Þýskalandi en þar greindist sjúkdómurinn fyrst árið 1967. Það gerðist eftir að apar voru fluttir til borgarinnar sem nota átti við rannsóknir. Í því tilviki smitaðist 31 einstaklingar og þar af létust sjö.
Alvarlegasti faraldur Marburg-veirunnar braust út í Angóla á árunum 2004 til 2005 þegar 374 einstaklingar smituðust og 329 létust. Í þeim faraldri var dánartíðnin 90%.