Margir meðal rússnesku elítunnar eru sagðir vonsviknir yfir því að stríðinu við Úkraínu hafi ekki lokið árið 2024. Frá þessu greinir Meduza en miðillinn vísar í heimildir sem koma meðal annars úr herbúðum Rússlandsforseta, þingi, embættismannakerfinu og frá sveitarstjórnarstiginu.
„Helsta tilfinningin er vonbrigði. Við reiknuðum með að stríðið tæki enda,“ er haft eftir heimildarmanni úr ríkisstjórninni sem tekur fram að fólk sé orðið þreytt. „Við erum þreytt á að bíða. Okkur finnst við bara sökkva dýpra og dýpra með hverjum degi. Við bjuggumst líka við því að losna undan efnahagsþvingunum í skiptum fyrir frið.“
Heimildarmaðurinn tók fram að efnahagslífið sé löngu komið yfir sársaukamörk og versni með degi hverjum. Stórfyrirtæki eru farin að tjá sig opinskátt um óánægju með seðlabanka Rússlands og stýrivexti. Ráðgjafi sem starfar bæði fyrir ríkisstjórnina og stórfyrirtæki segir að flest fyrirtæki séu rétt að halda sér á floti þó svo að allir séu að bíta á jaxlinn. Sumum fyrirtækjum hafi tekist að skila hagnaði en bara með því að koma eignum erlendra fyrirtækja sem flúðu Rússland í verð. „Allir skilja að þetta mun ekki vara að eilífu en þetta mun ekki skána neitt svona.“
Heimildarmenn voru sammála um að vonir um frið hefðu orðið að engu þegar Úkraína hóf innrás sína í Kursk-héraðið í Rússlandi í ágúst á síðasta ári en sumir heimildarmenn viðurkenndu þó að líklega hefði stríðið haldið áfram fram eftir ári 2025 þó svo að Úkraína hefði ekki látið verða af sókn sinni.
„Forsetanum finnst gaman að berjast, honum finnst það spennandi. Hvers vegna að hætta við hálfnað verk þegar við getum haldið áfram að beita þrýstingi á lokametrunum,“ sagði heimildarmaður sem er sagður starfa náið með embætti Pútíns.
Heimildarmenn nefna að það sé komið kurr í rússnesku elítuna sem sé komin með nóg. Nú standi vonir til að Donald Trump nái að höggva á hnútinn þegar hann tekur við embætti og stilla til friðar. Þetta séu þó hógværar vonir enda hafi Pútin sett ákveðin skilyrði fyrir friðarviðræðum sem Úkraína er ekki tilbúin að fella sig við. Þetta eru kröfur um að Úkraína afsali sér ákveðnum héröðum.
Það sé svo annar vandi sem fylgi því að stilla til friðar. Með því að láta af hernaði þurfi stjórnvöld í Rússlandi að upplýsa þjóð sína um hvað taki við. Enginn sé með svörin á reiðum höndum.
Kosið verður til löggjafaþings í Rússlandi á næsta ári og Meduza segir þá muni skipta miklu að geta varpað upp mynd af sigri Rússlands. Ljóst sé að hvernig sem stríðinu ljúki muni Rússar alltaf kalla það sigur. Eins segja heimildarmenn að til umræðu hafi komið að auka áhrif Rússlands svo sem með því að sameinast aftur Belarús. Það sé þó undir forseta Belarús, Aleksandr Lukashenko, komið sem mun líklega eiga erfitt með að afsala sér völdum.
Skoðanakannanir í Rússlandi sýna að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur því að hefja friðarviðræður og ljúka stríðinu.