Joe Biden Bandaríkjaforseti tilkynnti fyrir jól að 37 af 40 alríkisföngum sem sitja á dauðadeild verði ekki teknir af lífi og dómum þeirra breytt í lífstíðarfangelsi án möguleika á reynslulausn. Hafa mennirnir farið þess á leit að tilskipun Bidens verði gerð ógild hvað þá varðar.
Mennirnir sem um ræðir heita Shannon Agofsky og Len Davis en þeir eru báðir á dauðadeild í Terre Haute í Indiana. Þeir hafa báðir haldið fram sakleysi sínu og telja að tilskipunin komi til með að hafa áhrif á áfrýjunarmöguleika þeirra.
Agofsky var dæmdur til dauða árið 2004 fyrir morð á samfanga sínum þremur árum áður. Á þeim tíma afplánaði hann lífstíðarfangelsi fyrir morð og rán árið 1989 sem hann neitaði að hafa framið.
Davis er fyrrverandi lögreglumaður í New Orleans en hann var dæmdur til dauða árið 1994 fyrir að ráða leigumorðingja til að drepa konu sem hafði lagt fram kvörtun gegn honum. Davis hefur ávallt haldið fram sakleysi sínu.
Eftir að tilskipun Bidens tók gildi eru aðeins þrír alríkisfangar á dauðadeildum í Bandaríkjunum.
Þetta eru þeir Dylann Roof, sem drap níu manns í kirkju svartra í Suður-Karólínu árið 2015, Dzokhar Tsarnaev, sem hlaut dauðadóm vegna sprengjuárásarinnar í Boston-maraþoninu árið 2013, og Robert Bowers, sem skaut ellefu manns til bana í bænahúsi gyðinga í Pittsburgh árið 2018.