Þegar barnaverndaryfirvöld ákváðu að börnin skyldu sett í fóstur ákváðu foreldrarnir að láta þau fara í felur. Til að geta fylgst með þeim var staðsetningarbúnaður saumaður í föt þeirra. TT skýrir frá þessu.
Það voru barnaverndaryfirvöld í þremur sveitarfélögum sem ákváðu að börnin skyldu sett í fóstur. Ekki kemur fram í umfjöllun TT hvenær sú ákvörðun var tekin eða á hvaða grundvelli hún var tekin.
En barnaverndaryfirvöld gripu í tómt þegar taka átti börnin frá foreldrunum. Þeir höfðu komið þeim fyrir á ýmsum stöðum í Svíþjóð.
Börnin gengu ekki í skóla og höfðu ekki aðgang að heilbrigðisþjónustu á meðan á þessu stóð.
Snemma í apríl á síðasta ári bönkuðu þrjár barnungar stúlkur upp á í húsi einu í Dalsland. Þetta var um miðja nótt og voru stúlkurnar léttklæddar og ískaldar. Þær sögðu húsráðendum að þær væru á flótta og sögðu þær að þeim hefði verið haldið föngnum mánuðum saman.
Dagens Nyheter segir að við rannsókn málsins hafi lögreglan fundið staðsetningarbúnað, sem hafði verið saumaður inn í fatnað barnanna. Oscar Johansson, saksóknari, sagði að með þessu hafi foreldrarnir viljað geta fundið börnin ef lögreglan eða barnaverndaryfirvöld fyndu þau og flyttu á nýjan stað.
Johansson sagði að einnig hafi fundist staðsetningarbúnaður í sumum bílanna sem barnaverndaryfirvöld nota.
Börnin eru nú öll í umsjá barnaverndaryfirvalda og fá foreldrar þeirra ekki að vita hvar þau eru.