2016 héldu hjónin síðustu þakkargjörðahátíð sína á heimili sínu í Knoxville í Tennessee en þau höfðu nýlega selt húsið sitt og ætluðu að flytja á brott til að hefja nýtt og rólegt líf. Þau höfðu verið gift í 31 ár og Joel var reiðubúinn til að fara á eftirlaun þrátt fyrir að vera aðeins 61 árs.
Þau buðu þremur uppkomnum dætrum sínum og syninum Joel, sem var 28 ára, að koma og fagna hátíðinni með þeim. Joel kom frá Baton Rouge þar sem hann stundaði nám við Lousiana State háskólann. Hann hafði stundað nám þar í rúman áratug, hafði aldrei unnið og fékk fjárhagslegan stuðning frá foreldrum sínum. En nú voru tímarnir að breytast. Mirror skýrir frá þessu.
Í aðdraganda þakkargjörðarhátíðarinnar sagði Joel eldri dætrum sínum að um jólin ætlaði hann að segja Joel yngri að hann myndi ekki lengur fá fjárhagslegan stuðning frá þeim, nú þyrfti hann að standa á eigin fótum.
Fjölskyldan naut þakkargjörðarhátíðarinnar saman og á sunnudeginum fór Joel yngri aftur til Baton Rouge.
Á mánudeginum mætti Lisa ekki til vinnu og svaraði ekki í síma. Yfirmaður hennar hafði því samband við lögregluna og lýsti áhyggjum sínum af þessu. Lögreglumenn voru sendir að heimili hjónanna. Þegar þeir fóru inn veittu þeir strax athygli að mjög heitt var í húsinu og vond lykt af efnablöndum og rotnun. Innkaupapoki og vörur úr honum lágu við útidyrnar, veski lá á gólfinu og það voru blóðblettir á gólfi og teppi.
Á annarri hæðinni fann lögreglan afskorna hönd. Blóðslóð leiddi lögreglumennina að sundurhlutuðum líkum Joel eldri og Lisa. Svo virtist sem Joel eldri hefði verið stunginn til bana á efstu hæð hússins. Síðan hafi verið ráðist á Lisa, þegar hún kom heim úr verslunarferð, og hún myrt.
Búið var að hluta líkin í sundur og var ekki annað að sjá en morðinginn hefði reynt að fela ódæðisverk sitt. Í hjónaherberginu stóðu tvær plastfötur á plastundirlagi. Þær voru fullar af ýmsum efnum og ofan í þeim flutu líkamshlutar. Á neðstu hæðinni var höfuð Lisa í stórum potti sem stóð á eldavélinni.
Um allt hús fundust hnífar og þrifaefni.
Krufning leiddi í ljós að Joel hafði verið stunginn 42 sinnum á meðan hann barðist af öllum mætti fyrir lífi sínu. Stungurnar náðu í gegnum rifbeinin og höfðu gert gat á lungu, lifur og nýru. Útlimirnir höfðu síðan verið skornir af.
Lisa hafði verið stungin 31 sinni áður en útlimirnir voru skornir af líkinu.
En þar sem hjónin áttu enga óvini sem vitað var um, hver hafði þá myrt þau?
Svarið fann lögreglan í minnisbók sem fannst í bakpoka í hjónaherberginu. Joel yngri hafði sett bakpokann þar þegar hann kom heim um þakkargjörðarhátíðina. Í minnisbókina hafði hann skrifað nákvæma útlistun á hvernig hann ætlaði að myrða foreldra sína. Hann hafði einnig skrifað lista yfir það sem hann þyrfti að muna áður en hann léti til skara skríða. „Redda hnífum,“ stóð meðal annars.
„Drepa hann með hnífi. Taka til áður en hún kemur heim . . . Drepa hana með hnífnum,“ stóð meðal annars í minnisbókinni. Einnig hafði hann skrifað hvernig hann hugðist leysa líkin upp í efnablöndum þannig að útilokað væri að skera úr um dánarstundina. „Hækka hitann eins mikið og hægt er til að hraða rotnuninni,“ hafði hann einnig skrifað.
Rannsóknin leiddi í ljós að Joel yngri keypti hnífa, ýmsar efnablöndur, plastfötur og plastdúka vikurnar fyrir morðin.
Þessi fimm blaðsíðna langa morðáætlun hans afhjúpaði einnig af hverju hann myrti foreldra sína. Hann vildi fá líftryggingu þeirra.
Hann var handtekinn þann 29. nóvember 2016 við heimili sitt í Baton Rouge. Hann var með djúp sár á höndum og hakkavél í skotti bifreiðar sinnar.
Hann var ákærður fyrir morðin á foreldrum sínum en neitaði sök. Fyrir dómi kom fram að hann hafði tæmt bankareikninga þeirra áður en hann hélt aftur til Baton Rouge. Þar ætlaði hann að bíða eftir að fá líftryggingu þeirra greidda út en hún var 500.000 dollarar.
Joel yngri var fundinn sekur um tvö morð og ósæmilega meðferð á líkum foreldra sinna. Hann var dæmdur í fimmfalt lífstíðarfangelsi, með möguleika á reynslulausn eftir 51 ár.