Það kom nokkrum öfga-hægrimönnum í Bandaríkjunum á óvart þegar forsetaframbjóðandinn Donald Trump viðurkenndi á dögunum að hann tapaði forsetakosningunum árið 2020. Hingað til hefur forsetaframbjóðandinn ekki viðurkennt tapið heldur haldið því fram að demókratar hafi stundað kosningasvindl.
Nú hefur Trump á undanförnum vikum minnst þrisvar gengist við tapinu með því að vísa til þess að hann hafi verið hársbreidd frá því að vera kjörinn 2020. „Hann rétt hafði þetta. Það var hræðilegt,“ sagði Trump um Joe Biden forseta í hlaðvarpi þann 4. ágúst. Hann notaði sambærilegt orðalag á kosningafund 30. ágúst og á viðburði fyrir blaðamenn þann 23. ágúst.
Eins og margir muna neitaði Trump að viðurkenna ósigur eftir kosningarnar 2020 þegar tapaði fyrir Biden með 7 milljón atkvæðum og 74 kjörmönnum. Trump reyndi allt sem hann gat til að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt og náðu þær tilraunir hans hámarki þegar áhlaup var gert á bandaríska þinghúsið þann 6. janúar árið 2021. Stuðningsmenn Trump báru ábyrgð á áhlaupinu en þeir ætluðu sér að koma í veg fyrir að tap Trump yrði skjalfest.
Þjóðernissinninn Nick Fuentes er sármóðgaður yfir að Trump hafi nú gengist við tapinu. Hann segist nú ætla að berjast fyrir því að Trump verði ekki kjörinn núna í nóvember.
„Hvers vegna reyndum við að koma í veg fyrir að kosningunum yrði stolið? Hvers vegna mætti fólk þann 6. janúar? Hvers vegna fór fólk í fangelsi út af því? Það hefði verið gott að hann viðurkenndi þetta áður en 1.600 manneskjur fengu yfir sig ákærur,“ sagði Fuentes í hlaðvarpi sínu og vísaði til sakamála sem voru höfðuð gegn áhlaupsmönnum.
„Það hefði verið gott að vita þetta áður en eignir mínar voru frystar, áður en ég var settur í flugbann, bannaður allsstaðar, tapaði öllum bankaviðskiptum og greiðslugáttum.“
Fuentes var áður gallharður stuðningsmaður Trump og borðaði með forsetaframbjóðandanum og rapparanum Kanye West á eign Trump í Mar-a-Lago Flórída árið 2022. Fuentes segir ummæli Trump vera yfirgengileg svik við Trumpista og þær fórnir sem stuðningsmenn færðu til að reyna að hnekkja niðurstöðum kosninganna 2020.
Rannsakandi við George Washington háskóla, Colin Henry, hefur undanfarið rannsakað hlutverk Internetsins í ofbeldi sem framið er af pólitískum ástæðum. Hann segist undanfarið hafa tekið eftir því að Trump er að tapa stuðningi innan samfélags öfgamanna.
Öfgahægrikonan Laura Loomer skrifaði á X [áður Twitter] að Trump þurfi að grípa inn í stöðuna því hægrið geti ekki varið öðrum fjórum árum í að öskra kosningasvindl. Hlaðvarpskonan Candace Owens segist enn styðja Trump en margir séu þó að missa trúnna á hann.