Sænska ríkisútvarpið segir að margar kvartanir hafi borist til umsvifamikillar leigubílastöðvar vegna svikahrappa sem þykjast vera á vegum stöðvarinnar og rukka fólk um miklu meira en ferð með löglegum leigubíl kostar.
Samningur er í gildi á milli Swedavia, sem rekur flugvöllinn, og leigubílastöðva um að ferð frá vellinum inni í borgina megi að hámarki kosta 830 sænskar krónur en það svarar til um 10.500 íslenskra króna. Gildir þetta verð fyrir einn til fjóra farþega.
Ferðin tekur um hálfa klukkustund og hafa sumir þurft að greiða 6.000 sænskar krónur fyrir hana en það svarar til tæplega 80.000 íslenskra króna.
„Fólk hefur staðið hér í móttökunni og grátið eftir að hafa borgað 5.000-6.000 krónur,“ sagði Pernilla Samuelsson, forstjóri Taxi Stockholm, í samtali við Sænska ríkisútvarpið.
Fólkið, sem hefur kvartað, taldi allt að það væri í leigubíl frá Taxi Stockholm en það er ein stærsta leigubílastöð landsins.
Sjóræningjaleigubílarnir skarta skilti og nafni sem líkist merki og nafni Taxi Stockhom og því áttar fólk sig seint á að það situr í sjóræningjaleigubíl.
Taxi Stockholm hefur verið með herferð í gangi á Arlanda flugvellinum til vekja athygli fólks á því að númerið 15 00 00 eigi að vera í lógói leigubíla, þá sé öruggt að þeir séu frá Taxi Stockholm.