Elon Musk hefur ekki farið leynt með það undanfarna mánuði að hann vill sjá Donald Trump sem næsta forseta Bandaríkjanna. Musk hefur færst lengra til hægri á væng stjórnmála og talar nú fyrir kristilegum fjölskyldugildum og íhaldssömum kynjahlutverkum. Hann hefur heldur ekki veigrað sér við að segja heilu ríkisstjórnunum stríð á hendur og meðal annars verið gagnrýninn í garð ríkisstjórnarinnar í Bretlandi sem hann telur hafa brugðist kjósendum sínum í útlendingamálum.
Hann lenti eins upp á kant við stjórnvöld í Brasilíu sem brugðu á það ráð að hreinlega loka á samfélagsmiðilinn X, áður Twitter, þar í landi, en Musk er eigandi miðilsins. Forseti Brasilíu. Luiz Inácio Lula da Silva, segir að heimurinn þurfi ekki að sætta sig við öfgahægri skoðanir Musk, bara því hann er ríkur.
Hæstiréttur Brasilíu hefur staðfest bannið þar sem Musk hefur ekki skipað sér löglærðan talsmann í landinu. Dómstóllinn hafði ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að loka bæri á tiltekna aðganga á X sem höfðu dreift upplýsingaóreiðu og hatursáróðri. Einkum voru þetta notendur á vegum fyrrum forseta Brasilíu, Jair Bolsonari, og hægri flokk hans. Musk mótmælti þessum lokunum í nafni tjáningarfrelsis og til að sporna við ritskoðun.
Í kjölfarið sagði Lula da Silva í viðtali við CNN að nú hafi dómskerfið í Brasilíu lagt línurnar með að heiminum ber ekki að kyngja stjórnmálaskoðunum Musk þegjandi og hljóðalaust.
Brasilía er mikilvægur markaður fyrir X, en samfélagsmiðillinn hefur átt erfitt uppdráttar undanfarin misseri og tapað miklum auglýsingatekjum síðasta árið. Um 40 milljónir Brasilíumanna voru skráðir á miðilinn og notuðu minnst einu sinni í mánuði.
Musk freistaði þess að komast framhjá banninu með þvi að hafa X áfram opið Brasilíumönnum sem tengjast netinu í gegnum Starlink gervihnattaþjónustu hans. Þá greip hæstaréttardómarinn Alexandre de Moraes á það ráð að fyrsta bankareikninga Starlink í Brasilíu, og hótaði að svipta Starlink starfsleyfinu. Nú hefur Musk gefið undan og samþykkt að loka á X í gegnum Starlink.
Elon Musk hefur þó verið gagnrýndur fyrir að hafa tekið slaginn við Brasilíu í nafni tjáningarfrelsis. Til dæmis hefur auðmaðurinn Mark Cuban bent á að tjáningarfrelsið á X gildir bara svo lengi sem tjáningin er í samræmi við persónulegar skoðanir Musk. Þvert á móti sé mikil ritskoðun stunduð á miðlinum.
Dæmi sem hafa verið nefnd um ritskoðun Musk-eru fréttir sem eru neikvæðar í garð Trump eru gjarnan merktar sem falsfréttir eða að vefslóðir þeirra séu óöruggar. Það sama eigi við um heilu fjölmiðlana sem Musk hugnast ekki.
Hann hefur eins lokað á notanda sem birti upplýsingar um flug einkaþotu Musk, bannaði svo alla blaðamenn sem fjölluðu um málið og til að bæta gráu ofan á svart bannaði hann svo blaðamann fyrir að fjalla um blaðamennina sem hann hafði bannað. Eins hefur hann lokað fyrir aðganga hjá fjölda vinstrisinnaðra blaðamanna. Hann ritskoðaði færslur um heimildarmynd BBC um mannréttindabrot indverska forsætisráðherrans og færslur sem gagnrýndu tyrkneska forsetann í aðdraganda kosninga í Tyrklandi.
Síðan átti hann við algórithma X til að tryggja að færslur hans næðu augum fleiri notenda. Uppljóstrari frá X hafði samband við blaðamann Business Insider og greindi frá því að Musk hafi boðað hugbúnaðarverkfræðinga miðilsins á langa fundi og lét þá rannsaka hvers vegna tístin hans komust ekki á flug.