Í annríki hversdagsins þá geta hálfopnar rúðurnar nánast virkað eins og einhverskonar meðferð og færa manni tíma þar sem allt stress og nöldur gleymist.
En það getur haft neikvæðar afleiðingar að vera með gluggana hálfopna, eitthvað sem margir bílstjórar hafa ekki hugmynd um.
Bílasérfræðingurinn Bernat Escolan, sem er mjög vinsæll á Instagram, varar fólk við að aka um með gluggana hálfopna. Hann segir að það geti haft alvarlegar afleiðingar ef óhapp verður og geti fólk slasast meira en ella.
Hann segir að þetta geti valdið áverkum á höfði og hálsi ef árekstur verður. Postal skýrir frá þessu og segir að Escolan ráðleggi fólki því að skrúfa rúðurnar alveg niður eða þá að hafa þær alveg uppi. Ef þetta hentar ekki, þá ráðleggur hann fólki að skrúfa þær bara niður um nokkra sentimetra.
Það eru ekki allir sammála þessu og benda á að bílrúður séu hannaðar til að brotna í örsmáa og hættulausa mola ef óhapp á sér stað. Þess utan eykur það eldsneytiseyðsluna að aka með gluggana opna.