Einkaþjálfarinn, Thomas Mansfield, var í hörkuformi en nokkrar klukkustundir liðu frá því hann drakk orkudrykkinn þar til hann lést. Í millitíðinni hafði hann farið í ræktina og tekið æfingu.
Dánardómstjóri hefur nú skilað niðurstöðu rannsóknar sinnar og í henni eru neytendur hvattir til að fara eftir leiðbeiningum á umbúðum fæðubótarefna og orkudrykkja.
Mansfield, sem var frá Wales, virðist hafa lesið rangt á umbúðir orkudrykkjarins og innbyrt allt að sextánfalt magn af ráðlögðum dagskammti af koffíni.
Robin May, vísindamaður hjá FSA, bresku matvælastofnuninni, segir að þó að koffín sé náttúrulegt efni þá séu dæmi um að fólk innbyrði ómeðvitað allt of mikið magn af því.
„Hreint efni á borð við koffínduft getur verið mjög sterkt þannig að fólk ætti alltaf að fylgja þeim leiðbeiningum sem eru á umbúðunum,“ segir Robin.