fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Pressan

Lögreglumennirnir grétu þegar þeir opnuðu hlerann – „Það versta sem við höfum upplifað“

Pressan
Laugardaginn 28. september 2024 21:00

Lögreglumennirnir grétu þegar þeir opnuðu hlerann. Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 15. september 1981 ætlaði Ursula Herrmann, 10 ára, að hjóla heim til móður sinnar. Hún hvarf á leiðinni og alla tíð síðan hafa ættingjar hennar reynt að finna svör við hvað gerðist þennan örlagaríka dag.

Í 27 ár rannsakaði lögreglan málið. Kannaði sögu 15.000 manns, sem voru grunaðir, 11.000 ökutæki, 20.000 fingraför og 4.000 aðrar vísbendingar. Að lokum var mesti slagsmálahundur bæjarins handtekinn en fjölmiðlar nefndu hann „Skeggjaða risann“. En vandi lögreglunnar var að hún hafði engin sönnunargögn sem tengdu hann við málið.

Mál Ursulu skók Vestur-Þýskaland og Die Welt segir að málið sé talið eitt það dularfyllsta og ótrúlegasta sem upp hefur komið í landinu eftir síðari heimsstyrjöldina.

Dagurinn örlagaríki

Í Eching am Ammersse, í daglegu tali Eching, bjuggu um 1.000 manns 1981. Bærinn er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá München. Í sumar- og vetrarfríum streymdi efnað fólk til bæjarins til að njóta lífsins í lúxushúsum við Ammersee vatnið. Lítill greniskógur, Weingarten, skildi Eching frá bænum Schondhorf, sem var enn fámennari, en hann var vinsæll meðal útivistarfólks og veiðimanna.

Að skóla loknum þann 15. september 1981, sem var fyrsti skóladagur haustsins, spilaði Ursula smávegis á píanó með Michael, 18 ára bróður sínum, og hjólaði síðan í gegnum skóginn til Schondorf þar sem hún ætlaði að borða kvöldmat hjá frænku sinni. Um klukkan 19.20 lagði hún af stað, hjólandi, heim. Enn var bjart og frænka hennar horfði á eftir henni hjóla inn í skóginn. Það var í síðasta sinn sem hún sást á lífi.

Algjör þögn

25 mínútum eftir að Ursula lagði af stað hafði hún ekki skilað sér heim. Móðir hennar, Anneliese, fylltist áhyggjum og hringdi í frænkuna og fékk að vita að Ursula hefði lagt af stað fyrir góðri stundu. Ursula var samviskusöm stúlka og því fóru faðir hennar og frændi inn í skóginn, úr sitt hvorri áttinni. Þeir hlupu inn og hittust á miðri leið og hrópuðu og kölluðu á Ursula. En það var algjör þögn.

Tæpri klukkustund síðar voru lögreglumenn og slökkviliðsmenn komnir á svæðið til leitar auk tuga nágranna. Gengið var um skóginn og kallað á Ursulu. Þegar leið að miðnætti komst sporhundur á einhverja slóð. Hann dró stjórnanda sinn af stað og um 20 metra frá stígnum vísaði hann á lítið rautt hjól. Það var hjólið hennar Ursulu.

Ursula. Mynd:Lögreglan

Lögreglan var þess fullviss að Ursula væri í skóginum og leit var því haldið áfram í myrkrinu í úrhellis rigningu. Þyrla var fengin til aðstoðar og bátur lögreglunnar var við leitarstörf á Ammersee og kafarar leituðu í vatninu.

Klukkan 01.43 tilkynnti útvarpsstöð héraðsins að Ursulu væri saknað og bað fólk um að leita að þessar grannvöxnu, 143 sm háu stúlku, sem var með stutt ljóst hár. Hún var í grárri peysu, dökkgrænum buxum og brúnum sandölum þegar hún hvarf.

Skyndilega hringdi síminn

Anneliese og Michael sátu grátandi í eldhúsinu 36 klukkustundum eftir að Ursula hvarf. Skyndilega hringdi síminn. Anneliese svaraði en það var algjör þögn á hinum enda línunnar. Skyndilega var lagbútur leikinn og síðan varð þögn á nýjan leik. Nokkrar sekúndur liðu og aftur var lagið leikið og síðan var símtalinu slitið. Þetta endurtók sig síðan næstu klukkustundir og foreldrarnir urðu sífellt sannfærðari að hér væri um þann eða þá sem rændu Ursulu og að þeir væru að reyna að segja þeim eitthvað.

Bréfið

Lögreglan mætti heim til foreldranna til að vera viðstödd næstu hringingu. Næstu tvær klukkustundirnar var hringt þrisvar, lagið var leikið og síðan lagt á. Lögreglan tók þetta upp og fólk klóraði sér í höfðinu: Hvað þýðir lagið? Hvað er verið að reyna að segja?

Daginn eftir berst bréf, stílað á Michael, sem á stóð„Liggur á!“ Bréfið var sett saman með bókstöfum og orðum sem höfðu verið klippt út úr þýskum dagblöðum: „Við rændum dóttur ykkar. Ef þið viljið sjá hana aftur þá verðið þið að greiða tvær milljónir marka í lausnargjald.“ Sú upphæð svarar til um 1,3 milljarða íslenskra króna á núvirði. Í bréfinu kemur einnig fram að hringt verði í foreldrana og að lagið verði leikið til að staðfesta að það séu mannræningjarnir sem hringja. En af því að símtölin byrjuðu áður en bréfið barst var talið að þeir hafi misreiknað sendingartíma bréfsins. Í því voru Anneliese og Michael beðin um að svara eftir að lagið væri leikið og segja hvort þau vildu greiða eða ekki. „Ef þið hringið í lögregluna eða greiðið ekki, drepum við dóttur ykkar,“ stóð einnig í bréfinu.

Annað bréfið sem foreldrar Ursulu fengu. Mynd:Lögreglan

Bara nokkrum mínútum eftir að þau höfðu lesið bréfið var hringt aftur. Lagið var leikið og síðan var þögn. Anneliese sagði þá hikandi að þau myndu greiða lausnargjaldið vitandi að fjölskyldan átti enga peninga og hafði aldrei átt. Hún spurði síðan um nafnið á tveimur uppáhaldsböngsum Ursulu til að fá staðfestingu á að hún væri á lífi en fékk ekkert svar. „Talið við mig! Segið eitthvað! Segið eitthvað um Ursulu!“ öskraði hún í símann áður en því var slitið.

Fljótlega barst annað bréf, gert á sama hátt og hið fyrra. Í því voru leiðbeiningar til Anneliese og Michael um að setja peninga í tösku og að hana ættu þau svo að afhenda en ekki kom fram hvar. Einnig stóð að Michael skyldi fara einn með lausnargjaldið og skyldi hann aka í gulum Fiat 600 þangað sem ætti að afhenda það.

Faðir Ursulu átti að aka svona bíl þegar hann færi að afhenda lausnargjaldið. Mynd:Wikimedia Commons

Anneliese var heimavinnandi og Michael var kennari. Þau áttu fjögur börn og höfðu ekki hugmynd um hvernig þau ættu að greiða lausnargjaldið. Nágranni og fjölskylduvinur buðust til að greiða hluta af því og yfirvöld ákváðu að greiða það sem upp á vantaði. Nú var bara að bíða eftir næsta bréfi með upplýsingum um hvar átti að afhenda peningana. En það komu ekki fleiri bréf. Síðar kom í ljós að mannræningjarnir höfðu gert slæm mistök og því urðu þeir að slíta sambandinu við foreldra Ursulu.

Leitað að nýju

Lögreglan ákvað að leita í skóginum á nýjan leik og nota til þess tíu sporhunda sem áttu að leita þar næstu fjóra til fimm daga. Á fjórða degi fann lögreglumaður fjögur nýgróðursett grenitré í afskekktum hluta skógarins. Hann kannaði málið betur og gróf aðeins með skóflu og kom þá niður á brúnt teppi sem var breitt yfir hlera. Þegar hann tók teppið af sá hann að sjö hengilásar voru á hleranum. Hann náði að þvinga skófluna undir hlerann og spenna hann upp. Í kassa sem var grafinn niður í jörðina undir hleranum sá hann Ursulu sitja á stól, það var eins og hún svæfi. Annar lögreglumaður kom hlaupandi á vettvang og þeir drógu Ursulu upp, líkaminn var kaldur og það var enginn vafi á að hún var dáin. Þeir lögðu lítinn líkamann á jörðina og gráta.

Tveir lögreglumenn fóru síðan heim til foreldranna og færðu þeim sorgarfréttina. Michael spurði hvort hún hefði þjáðst en lögreglumennirnir sögðu þeim að engin merki hefðu verið um átök. Lögreglan taldi að henni hefðu verið gefin róandi lyf áður en hún var sett niður í kassann og að hún hafi kafnað vegna súrefnisskorts.

Kassinn sem Ursula var látin dúsa í. Mynd:Lögreglan

Kassinn var um 140 sm á hæð. Í honum var stóll og fata undir honum, sem átti líklega að nota sem klósett. Die Welt segir að veggirnir hafi verið fóðraðir með bleikum teppum. Í kassanum fundust munir sem bentu til að ætlunin hafi verið að halda Ursulu á lífi þar til lausnargjaldið væri greitt. Þar var íþróttagalli í barnastærð, 12 gosdrykkjaflöskur, 3 vatnsflöskur, 6 súkkulaðistykki, 4 kexpakkar og 2 tyggjópakkar. Einnig voru bækur og blöð og ljósapera sem var tengd við rafgeymi. Í horninu var útvarp sem var still á útvarpsstöðina Bayern 3 en stef hennar var það sama og var leikið í símann.

Hluti af því sem lögreglan fann í kassanum. Mynd:Lögreglan

Ofan á kassanum var einhverskonar loftræstikerfi búið til úr hvítum plaströrum sem voru límd saman. Það náði upp úr jarðveginum en var hulið laufblöðum. Það var heldur engin vifta sem tryggði að loft flæddi inn i kassann. Kassinn reyndist vega 60 kíló. Lögreglan taldi útilokað að einn maður hefði getað komið honum inn í skóginn og var að auki viss um að um staðkunnuga aðila væri að ræða.

Verðlaunum heitið

Lögreglan hét 30.000 mörkum fyrir upplýsingar sem myndu leiða til þess að málið yrði leyst en það vakti gríðarlega athygli í landinu. Ábendingar streymdu inn og ein þeirra hljóðaði upp á að Werner Mazurek, 31 árs, væri morðinginn. Hann var með skegg, notaði gleraugu og var með bjórvömb. Hann átti heima nærri Herrmannfjölskyldunni. Hann var kvæntur og átti tvö börn. Hann var atvinnulaus og skuldum vafin.

Fljótlega eftir að Ursula hvarf ræddi lögreglan við nágranna fjölskyldunnar og spurði hvað fólk hefði verið að gera þegar hún hvarf. Þá sagðist Mazurek ekki muna það en hringdi sólarhring síðar og sagðist hafa verið að spila Risk við eiginkonu sína og tvo vini heima hjá sér. Lögreglan dró sannleiksgildi fjarvistarsönnunarinnar í efa og gerði húsleit heima hjá Mazurek og á verkstæði hans en fann ekkert sem tengdi hann við málið. En þrýstingurinn á lögregluna, um að leysa málið, jókst sífellt og að lokum var Mazurek handtekinn sem og tveir vinir hans og þeir yfirheyrðir klukkustundum saman. Þeir neituðu alfarið að vita nokkuð um málið.

Játning

Nýjar ábendingar héldu áfram að berast og margar snerust um Klaus Pfaffinger, vin Mazureks, en hann var atvinnulaus, áfengissjúkur og glímdi oft við ofskynjanir. Hann var bifvélavirki að mennt. Ábending barst um að hann hefði sést aka á skellinöðru kvöldið sem Ursula hvarf og hafi skófla verið fest við hana. Hann neitaði að vera viðriðinn málið en í skýrslutöku tók málið nýja stefnu. Þegar lögreglumenn fóru út úr yfirheyrsluherberginu í smá pásu hvíslaði Pfaffinger að ritara sem var til staðar: „Hvað ef ég veit eitthvað?“ Þegar lögreglumennirnir komu aftur inn lagði hann spilin á borðið og sagði að Mazurek hafi beðið hann um að grafa stóra holu í skóginum í byrjun september. Hann fékk 1.000 mörk og litasjónvarp fyrir vikið. „Seinna sá ég að kassi var settur ofan í holuna,“ sagði hann. Að yfirheyrslunni lokinni fögnuðu lögreglumennirnir mjög en fögnuðurinn var skammvinnur. Af einhverum ástæðum skrifuðu þeir ekki yfirheyrsluskýrslu og létu Pfaffinger skrifa undir en það þarf að gera í Þýskalandi. Þessu sáu þeir mikið eftir.

Werner Matzurek. Mynd:Lögreglan

Þeir fóru með hann út í skóg og létu hann lýsa staðnum þar sem hann gróf holuna og skýrði hann í smáatriðum frá hvernig trén í kringum hana litu út, hversu stór hún var og hvernig jarðvegurinn var. Allt passaði þetta og lögreglan var viss um að hann segði satt frá. En þegar hann var beðinn um að leiða lögregluna að holunni varð hann stressaður og fór á allt annan stað í skóginum. Þremur klukkustundum eftir játninguna dró hann hana til baka. „Það sem ég sagði var ekki satt,“ sagði hann og sagði að Mazurek hafi bara fengið skóflu lánaða hjá sér. Eftir þetta þvertók hann fyrir að hafa grafið holuna. Þar sem hann hafði ekki skrifað undir yfirheyrsluskýrsluna eftir játninguna hafði lögreglan ekkert í höndunum.

Flutti úr bænum

Bæjarbúar voru sannfærðir um að Mazurek væri viðriðinn málið og hann varð enn hataðri en áður. Að lokum flutti hann á brott með fjölskyldu sína. Þau fluttu til Kappeln sem er við dönsku landamærin.

Lögreglan hélt áfram að rannsaka málið og dreifði 100.000 flugritum með myndum af Ursulu en án árangurs. Smám saman er dregið úr kraftinum í rannsókninni og fjölskylda Ursulu reyndi að skilja hvað gerðist.

Tíminn leið en 2005 var málið tekið aftur til rannsóknar en það var hluti af gömlum óleystum sakamálum í Bayern sem ákveðið var að gera átak í að leysa. Vonast var til að tækniframfarir gætu orðið til þess að hægt væri að leysa málið áður en það fyrndist.

Teikning lögreglunnar af Ursulu í kassanum. Mynd:Lögreglan

24 ár voru liðin frá því að Ursula hvarf og Pfaffinger lést 1992 en Mazurek var á lífi og bjó enn við dönsku landamærin. Lögregluna grunaði að hann tengdist málinu og byrjaði að fylgjast með honum. Hann hafði engan grun um það og vissi ekki að lögreglan kom hlerunarbúnaði fyrir í bíl hans, heima hjá honum og hleraði síma hans. Dag einn, þegar hann var í vinnu, gerði lögreglan húsleit heima hjá honum og fann gamalt kasettutæki. Var það tækið sem var notað til að taka upp lagið sem var leikið í símann?

Þann 28. maí 2008 var Mazurek handtekinn og hald lagt á segulbandstækið. Hleranir höfðu ekki skilað neinu nema að hann hafði eitt sinn rætt við vin sinn um að mál Ursulu myndi fljótlega fyrnast.

Eftir rannsókn á segulbandstækinu komst hljóðsérfræðingur að þeirri niðurstöðu að það hafi líklega verið notað til að taka lagið upp. Þetta mat var byggt á því að tækið hafði eigið smellihljóð sem heyrðist á upptökum af símtölunum. Lögreglan var fullviss um að hún hefði loksins fundið morðingjann og fjölskyldu Ursulu var létt. Nú myndu þau kannski loksins fá svör.

Dómurinn

Ákæra var gefin út og málið tekið fyrir dóm í febrúar 2009. Þar kom fram að Michael yngri, bróðir Ursulu, hafði efasemdir um að Mazurek væri sökudólgurinn. Það væru engin lífsýni sem tengdu hann við málið né annað áþreifanlegt. 200 manns báru vitni fyrir dómi og flestir báru Mazurek slæma sögu. Í varnarræðu sinni sagðist hann vita að hann hafi ekki alltaf verið góður maður og oft hafi hann verið ókurteis en hafi ekkert með málið að gera. En það styrkti ekki framburð hans að eiginkona hans og börn báru honum slæma sögu. Lögreglumennirnir sem fundu Ursulu komu fyrir dóm og lýstu því sem gerðist; „Þetta er það versta sem við höfum upplifað,“ sögðu þeir.

Mazurek sagðist hafa keypt segulbandstækið á markaði skömmu áður en lögreglan fann það heima hjá honum en meintur seljandi þess fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.

Dómararnir voru ekki í neinum vafa um sekt hans og dæmdu hann í lífstíðarfangelsi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Myndbirting Madonnu vekur reiði – „Klikkað virðingarleysi“

Myndbirting Madonnu vekur reiði – „Klikkað virðingarleysi“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu

Telur þetta sanna aðkomu einræðisherrans að mjög umfangsmikilli dópframleiðslu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja

Refsivaldur Alaska – Maðurinn sem var rændur æskunni framdi hrottaleg ofbeldisbrot en er samt hylltur sem hetja
Pressan
Fyrir 5 dögum

Hinsta gjöf eiginkonunnar – „Litlar líkur eru á að ég lifi ein jól enn“

Hinsta gjöf eiginkonunnar – „Litlar líkur eru á að ég lifi ein jól enn“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Óhugnanlegt innihald plastpoka – Lögreglan segir málið mjög óvenjulegt

Óhugnanlegt innihald plastpoka – Lögreglan segir málið mjög óvenjulegt
Pressan
Fyrir 6 dögum

Spænskt meistaraverk fannst eftir að hafa ekki sést í rúma öld

Spænskt meistaraverk fannst eftir að hafa ekki sést í rúma öld
Pressan
Fyrir 6 dögum

Merk uppgötvun neðansjávar

Merk uppgötvun neðansjávar