Með þessu eiga milljónir manna um allan heim á hættu að verða fórnarlömb svikahrappa sem nota gervigreind til að klóna raddir þeirra.
Þetta kemur fram í aðvörun sem breski Starling bankinn sendi frá sér nýlega.
Í tilkynningunni segir að með aðeins þriggja sekúndna hljóðbroti geti svikahrappar endurgert rödd fólks. Þeir geta því nýtt sér myndbönd sem fólk birtir á samfélagsmiðlum. Þeir geta síðan sett sig í samband við vini og ættingja viðkomandi og notað gervigreindarútgáfuna af rödd viðkomandi til að hringja í viðkomandi og biðja um peninga.
Mörg hundruð manns hafa nú þegar orðið fyrir barðinu á svindli sem þessu. Niðurstaða könnunar, sem var gerð meðal 3.000 fullorðinna á vegum bankans og Mortar Research, leiddi í ljós að rúmlega fjórðungur hafði orðið fyrir svikum af þessu tagi á síðustu tólf mánuðum.
Einnig kom í ljós að 46% aðspurðra vissi ekki að svik af þessu tagi væru möguleg. Átta prósent sögðust myndu millifæra háar fjárhæðir ef vinir eða ættingjar bæðu um það og skipti þá engu þótt þeim þætti beiðnin undarleg.
„Fólk setur oft efni á Internetið með upptökum af rödd sinni án þess að gera sér í hugarlund að það geri það viðkvæmara fyrir svikum,“ sagði Lisa Grahame, yfirmaður upplýsingaöryggismála hjá Starling bankanum.
Bankinn hvetur fólk til að koma sér saman um „öryggissetningu“, eða eitthvað form lykilorðs, við ættingja sína. Þessa „öryggissetningu“ eða lykilorð þarf þá að nota í símtali til að staðfesta að um viðkomandi sé að ræða.