Fjölmargir hafa þó biðlað til yfirvalda um að stöðva yfirvofandi aftöku í ljósi þess að margir telja að Robert, sem er 57 ára, sé saklaus.
Það var þann 31. janúar 2002 að Robert mætti með dóttur sína á sjúkrahús í bænum Palestine í Texas. Stúlkan var meðvitundarlaus, blá og augljóslega í mikilli lífshættu.
Læknar hringdu nær umsvifalaust á lögreglu og sögðust fullvissir um að stúlkan væri með það sem kallast Shaken baby syndrome. Nikki lést á sjúkrahúsinu daginn eftir og töldu læknar fullvíst að hún hefði verið hrist til dauða – og það áður en krufning hafði farið fram.
Shaken baby syndrome er umdeilt hugtak í læknavísindum og hafa dómstólar, til dæmis í New Jersey í Bandaríkjunum, afskrifað hugtakið sem „ruslvísindi“ í ákveðnum tilfellum. Það kom þó ekki í veg fyrir að Robert var dæmdur til dauða í febrúar 2003.
Robert hefur staðfastlega haldið fram sakleysi sínu í málinu og aldrei viðurkennt að hafa beitt dóttur sína ofbeldi. Margir virðast vera sammála honum og í þeim hópi er til dæmis lögfræðingurinn og rithöfundurinn John Grisham. Læknar, lögfræðingar og vísindamenn eru einnig í þessum hópi
Breska blaðið Guardian hefur fjallað töluvert um mál Roberts undanfarin misseri. Í viðtali við blaðið segir Grisham að yfirvöld í Texas séu að fara að taka af lífi saklausan mann.
„Það sem er sérstakt við mál Roberts er það að það var enginn glæpur framinn. Í flestum málum þar sem dauðadómur er kveðinn upp ertu með morðingja og einhver framdi morð, en í tilfelli Roberts var enginn glæpur framinn og samt er verið að fara taka mann af lífi,“ segir Grisham.
Möguleikar Roberts á náðun fara minnkandi með hverjum deginum sem líður og síðustu viku hafnaði dómstóll áfrýjun hans.
Sem fyrr segir telja margir að dauðadómurinn yfir Robert hafi verið byggður á afar veikum grunni. Í fyrsta lagi hafi læknar fullyrt strax að um Shaken baby syndrome væri að ræða áður en rannsókn og krufning fór fram á Nikki.
Í annan stað var litið fram hjá undirliggjandi veikindum hjá stúlkunni en hún hafði verið með yfir 40 stiga rétt áður en faðir hennar fór með hana á sjúkrahús. Læknar litu fram hjá því að hún var með ómeðhöndlaða lungnabólgu og hafði hún fengið uppáskrifað lyf sem geta reynst börnum lífshættuleg, en sú vitneskja var ekki fyrir hendi á þeim tíma.
Loks hefur verið bent á að lögregla hafi ekki tekið tillit til þess að Robert er greindur með einhverfu. Þótti hann koma lögreglumönnum fyrir sjónir sem „kaldrifjaður morðingi“ þar sem hann sýndi ekki miklar tilfinningar í yfirheyrslum hjá lögreglu.
Brian Wharton, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar í Palestine, fór með rannsókn málsins á sínum tíma. Hann sagði í samtali við Guardian í fyrra að hann teldi að Robert væri saklaus. „Það var enginn glæpavettvangur, engin sönnunargögn. Það voru bara þessi þrjú orð: shaken baby syndrome. Án þeirra væri hann frjáls maður í dag.“