Nelson var nýlega í viðtali á vef Guinness um þetta magnaða afrek sitt sem hann náði að klára þegar hann var aðeins 24 ára. Í viðtalinu segist hann nokkrum sinnum hafa óttast um líf sitt og fjórum sinnum verið grunaður um njósnir; í Íran, Líbýu, Papúa Nýju Gíneu og Rússlandi.
Í viðtalinu segist hann fyrst hafa fengið þá flugu í höfuðið að heimsækja öll löndin árið 2017 þegar honum datt það snjallræði í hug að fara til Norður-Kóreu í vorfríinu (e. Spring break) sem nýtur mikilla vinsælda hjá bandarískum ungmennum. Eftir að hafa lokið við menntaskóla tók hann 80 þúsund dollara lán og lagði af stað í ógleymanlegt ferðalag sem átti eftir að taka hann um eitt og hálft ár.
Áður en Nelson lagði af stað í heimsreisuna hafði hann heimsótt þó nokkurn fjölda landa, þar á meðal Ísland en hann kom hingað til lands sumarið 2016. Ísland var því ekki hluti af eiginlegri heimsreisu kappans þar sem hann var búinn að koma til Íslands.
Nelson segist hafa reynt að forðast mikil átakasvæði en eðli málsins samkvæmt hafi það á köflum gengið erfiðlega. Til dæmis í Afríku. Hann rifjar upp að í Mið-Afríkulýðveldinu hafi 24 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna verið myrtir þar daginn áður en hann kom til landsins. Það varð til þess að 12 þúsund franskir hermenn voru sendir til höfuðborgarinnar.
„Ég óttaðist um líf mitt í nokkur skipti og taldi að mín síðasta stund væri að renna upp,“ segir hann en hann var handtekinn og grunaður um njósnir, meðal annars í Íran og Rússlandi. Sem betur fer var honum sleppt í öll skiptin en hann viðurkennir að honum hafi ekki staðið á sama á köflum.
Í viðtalinu segir hann frá besta landinu og því versta, eða kannski frekar uppáhaldslandinu og því sem heillaði hann minnst. Hann segir að Kambódía sé uppáhaldslandið hans af þeim sem hann heimsótti, fyrst og fremst vegna þessu hversu ótrúlega vinalegir heimamenn eru. Á hinum endanum eru aftur á móti Kómoreyjar, sambandsríki þriggja eyja í Indlandshafi undan austurströnd Afríku. Þar séu heimamenn yfir höfuð ekki mjög vinalegir.
Nelson notaði farþegaflugvélar óspart og þrátt fyrir að hafa heimsótt allan þennan fjölda af löndum kom sárasjaldan fyrir að flug var fellt niður. Það gerðist aðeins tvisvar. Nelson segist hafa reynt að einblína á það að bóka flug alltaf að morgni því líkurnar á að morgunflug séu felld niður séu minni en ef flogið er seinna um daginn. Og um uppáhaldsflugfélögin segir hann að Emirates og Qatar Airways hafi verið þau bestu til að ferðast með.
View this post on Instagram