Anna Cramling, sem er sænsk skákkona, kom nýlega fram í hlaðvarpinu Sjakksnakk og skýrði frá því sem karlkyns alþjóðlegur meistari gerði henni og fleiri konum.
„Það klikkaðasta sem hann gerði var að hann sendi bréfið í nafni annars. Ég opnaði bréfið í þeirri trú að það væri frá vini. Þetta var klikkað. Mér brá mikið og ég hugsaði með mér: „Af hverju fæ ég þetta?“, sagði hún.
Norska ríkisútvarpið skýrir frá þessu og segir að Cramling sé meðal vinsælustu skákmannanna sem streyma frá skákum sínum. Hún er með rúmlega eina milljón fylgjenda á YouTube.
Cramling, sem er 22 ára, sagði að þetta hafi byrjað þegar hún var 17 eða 18 ára. „Ég hélt að það væri bara ég. Þegar ég sá að fleiri stelpur höfðu lent í þessu, hugsaði ég: „Þetta er hræðilegt og ógeðslegt.“
Í ágúst var skákmaður dæmdur í 5 ára bann af aganefnd alþjóðaskáksambandsins FIDE. Ástæða er að hann sendi bréf til kvenna og barna með ósæmilegu innihaldi.
Það var rússneski miðillinn Meduza, sem er starfræktur utan Rússlands, sem fyrst skýrði frá málinu fyrir tveimur og hálfu ári síðan. Kom fram að minnst 15 skákkonur hefðu fengið bréf frá manninum.
Cramling sagði ekki hvað hún fékk í pósti en bæði Meduza og FIDE hafa skýrt frá því að margar kvennanna hafi fengið klám og notaða smokka.
Lögreglan hafði uppi á alþjóðlega meistaranum á grunni lífsýna.
Honum var ekki gerð refsing í heimalandi sínu því þar er athæfi af þessu tagi ekki refsivert.