Fjallað er um mál hennar á vef New York Times.
Það sem Dawn áttaði sig ekki á þegar hún vann draumaferðina var að um var að ræða ferð sem fíkniefnasmyglarar höfðu skipulagt og átti Dawn í raun að vera burðardýr.
Eftir að hafa millilent í Kína var hún látin fá tösku sem innihélt tvö kíló af metamfetamíni sem búið var að fela í fölskum botni. Til að gera langa sögu stutta var Dawn handtekin og ákærð fyrir fíknefnasmygl.
Kínversk yfirvöld taka hart á fíkniefnabrotum og fyrst þegar dómur féll var Dawn dæmd til dauða. Dómnum var síðar breytt í lífstíðarfangelsi og dvelur hún enn í fangelsi í borginni Guangzhou.
Í umfjöllun New York Times kemur fram að dómarinn í málinu hafi fallist á þau rök að Dawn hafi í raun verið leidd í gildru. Hún hefði samt mátt vita hvað væri í gangi og neita því að taka við umræddri tösku.
Fjölskylda hennar hefur nú sett allt á fullt við að reyna að fá aðstoð bandarískra yfirvalda við að fá hana heim til Bandaríkjanna. Aðstandendur hennar segja að hún hafi upplifað skelfilega meðferð í umræddu fangelsi og fangaverðir meðal annars nauðgað henni.
Gene, faðir Dawn, segir að hann hafi kosið að tjá sig ekki opinberlega um mál dóttur sinnar af ótta við að hennar biði frekari refsing. Nú hafi þau engu að tapa enda hafi heilsu Dawn hrakað mjög að undanförnu. Hunt, sem er 53 ára, er með æxli í leginu en hefur neitað því að gangast undir aðgerð þar sem hún treystir ekki kínverskum yfirvöldum.
Fram kemur í grein NY Times að bróðir hennar, Tim, hafi heimsótt hana til Guangzhou í júní síðastliðnum og hún hafi verið sjálfri sér ólík. Hún hafi að mestu haldið sig til hlés á meðan fangaverðir fylgdust með því sem fram fór á milli þeirra og skrifuðu glósur.
Tim mun ræða mál systur sinnar þegar hann verður kallaður fyrir bandaríska þingnefnd í næstu viku en í kjölfarið verða næstu skref ákveðin í máli Dawn.