Á síðustu árum hefur færst í vöxt að fólk beri slíka óværu með sér heim úr fríi en það er fjarri því að gaman sé að fá slíka gesti inn á heimilið enda enginn hægðarleikur að losna við þá.
Jens Galby, líffræðingur og meindýraeyðir, sagði í samtali við Newswire að aðalástæðan fyrir því að veggjalýs breiðist út sé að fólk ferðist meira en áður. Þær komist ofan í töskur fólks á hótelum eða öðrum gististöðum. Það sé mikið til vinnandi að losna við að taka ófögnuð eins og þær með heim.
Hann ráðleggur fólki að geyma ferðatöskur sínar inni á baðherbergi á gististöðum, helst í baðkarinu eða sturtuklefanum. „Veggjalýs halda sjaldan til inni á baðherbergi. Þær eru næstum alltaf í rúminu því þær vilja hafa eins stutta leið og hægt er í þann sem þær geta sogið blóð úr. Þú ert maturinn þeirra,“ sagði hann.
Veggjalýs sjúga blóð úr fólki og öðrum dýrum með heitt blóð. Þær sjúga blóð í 5 til 10 mínútur. Fórnarlambið fær rautt bitfar.
Best er að vera með ferðatöskur úr málmi eða plasti því það eru færri samskeyti (saumar) á þeim og yfirborðið er sleipara og þar með er erfiðara fyrir lýsnar að komast ofan í þær.
Ef ekki er hægt að koma ferðatöskunni fyrir inni á baðherbergi er rétt að setja hana á stól eða ferðatöskugrind. „Það heimskulegasta sem þú getur gert er að láta ferðatöskuna liggja opna á rúminu,“ sagði Galby.
Veggjalýs vilja vera nálægt rúmum. Að degi til fela þær sig oft í dýnum, rúmgrindum og sprungum og rifum. Yfirleitt nærri svefnstað þínum. Síðan koma þær úr fylgsnum sínum að næturlagi og sjúga blóð úr þér.
Ef það eru veggjalýs í herbergjum þá er hægt að sjá ummerki eftir þær undir dýnunum eða sænginni. Yfirleitt þá til fóta eða við höfðalagið.