Eru geitungar að ergja þig þessa dagana? Nú eða ert þú bara hrædd(ur) við geitunga og vilt halda þeim eins fjarri og hægt er? Það virðist vera minna um geitunga þetta sumarið en oft áður en þeir eru ekki horfnir af sjónarsviðinu og því má eiga von á að sjá einn og einn af og til. Oluf Jørgensen, 66 ára Dani, var orðinn leiður á heimsóknum geitunga á svalirnar hjá honum enda erfitt að njóta matar og drykkjar þegar geitungar eru á sveimi nærri. Hann ákvað að prófa að nota brúnan bréfpoka til að halda geitungunum fjarri og aðferðin virkaði svona líka vel og hefur slegið í gegn.
Í færslu á Facebook lýsti Oluf vandræðum sínum með geitunga:
„Maður heldur að þetta geti ekki verið en þetta er rétt. Geitungar höfðu verið að ergja okkur en síðan sáum við ráð um að notan brúnan bréfpoka og það virkar. Það hefur ekki einn einasti geitungur komið inn á svalirnar þegar við erum að borða. Þeir halda að þetta sé annað geitungabú og fljúga annað.“
Þá er ekkert annað að gera en prufa þetta ráð Oluf. Það getur varla gert ástandið verra.