fbpx
Miðvikudagur 07.ágúst 2024
Pressan

Djarfmælti og hispurslausi „Túrtappa Tim“ kemur af krafti inn í baráttuna – Svona reynir hægrið að tæta hann í sig

Pressan
Miðvikudaginn 7. ágúst 2024 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tim Walz, ríkisstjóri Minnesota, hefur verið valinn sem varaforsetaefni demókrata og hefur komið gífurlega sterkur inn í kosningabaráttuna. Hann setti nýlega allt á hliðina þegar hann kallaði forsetaframbjóðanda repúblikana, Donald Trump, og varaforsetaefni þeirra, JD Vance, skrítna. Ummælin urðu til þess að fleiri fóru að vekja athygli á því hversu skrítnir þessir frambjóðendur eru.

Maður fólksins

Sjálfur þykir Walz vera hressileg viðbót við kosningabaráttuna.  Hann sé almúgalegur, viðkunnanlegur, beittur og hreinskilinn. Bakgrunnur hans hefur eins vakið lukku en hann starfaði lengi sem kennari hjá opinberum grunnskólum, sem þjálfari í ruðningi og sem hermaður í 24 ár. Hann ólst upp í örlitlum smábæ þar sem hann aðstoðaði fjölskyldu sína við búskap. Faðir hans var skólastjóri og hvatti son sinn til að ganga í herinn. Síðar fylgdi hann í fótspor föður síns, lærði kennslufræði og sneri sér að kennslu. Það gerðu systkini hans líka og hefur Walz grínast með það að til að bæta enn í kennara hópinn í fjölskyldunni hafi þrjú af fjórum systkinunum einnig valið sér maka sem er kennari. Það gerði Walz sjálfur einmitt en kona hans  er Gwen Walz sem er kennari sjálf og kemur einnig úr kennarafjölskyldu.

Walz á tvö börn og hefur talað opinskátt um baráttu þeirra hjóna við ófrjósemi en bæði bæði börn hans eru getin með glasafrjóvgun. Hann er mikill stuðningsmaður hinsegin og kynsegin samfélagsins. Sem dæmi um það má nefna að þegar samkynhneigð var enn litin hornauga í Minnesota tók Walz að sér að styðja við hinsegin samfélagið í skólanum sem hann kenndi við.

Hann sat í 12 ár á þingi og greiddi þar atkvæði með Obamacare frumvarpinu, vinnumarkaðsaðgerðum, lagabreytingum til að hækka lágmarkslaun og studdi við frumvörp til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem ríkisstjóri Minnesota hefur hann barist fyrir réttinum til þungunarrofs, fyrir hertri vopnalöggjöf, fyrir auknum veikindarétti vinnandi fólks, betra fæðingarorlofi og svo hefur hann lýst Minnesota sem öruggan stað fyrir trans fólk.

Ný stefna í baráttunni

Eins og segir að framan vakti hann gífurlega athygli nýlega þegar hann lýsti Trump og Vance sem skrítnum. Stefnumál repúblikana væru skrítin en svo virtist sem að flokkurinn ætli sér að banna bækur og troða pólitík inn á heilsugæslurnar. Þessi lýsing Walz þótti góð stefnubreyting hjá demókrötum sem hafa yfirleitt reynt að hjóla fremur í málefnin en mennina. Að hæðast að þeim með því að stimpla þá skrítna séu ekki beint hörð skot heldur gefur til kynna að mennirnir, Trump og Vance, og það sem þeir standa fyrir sé ekki eðlilegt heldur skrítið.

Walz hefur nú komið fram á fyrsta framboðsfundi Kamala Harris eftir að hann var valinn sem varaforsetaefni. Þar sagðist hann stoltur að fá að fylgja Harris í kosningabaráttunni og þó að það sé skammur tími til stefnu þá sé það nægur tími til að hafa betur gegn Trump. Hann sagðist ætla að vinna hart að framboðinu enda gæti hann sofið þegar hann er dauður. Walz rakti í ræðu sinni að hafa alist upp í litlu samheldnu samfélagi. Hann kemur úr smábæ með aðeins um 400 íbúum þar sem fólk vann sameiginlega að hagsmunum heildarinnar. Hann hafi lært mikilvægi þess náungakærleiks og séð hvað almannahagur skipti miklu máli fyrir velsæld.

Það hafi verið nemendur hans sem hvöttu hann til að bjóða sig fram. Þar sem Walz starfaði á tímanum hafði demókrataflokkurinn ekki komið manni á þing í rúmlega 100 ár. Ekki fyrr en hann fór fram.

„Það voru nemendur hans sem hvöttu hann til að snúa sér að stjórnmálum. „Nemendurnir sáu í mér það sem ég vildi kenna þeim, þessa skuldbindingu við almannahag og þá trú að ein manneskja getur breytt samfélaginu. Og út af því að gagnfræðikennarar eru ótrúlega jákvæð stétt þá ákvað ég að bjóða mig fram í umdæmi sem hafði aðeins kosið einn demókrata á þing frá árinu 1892.“

Hann sagði að Bandaríkjamenn geti gleymt því að Trump gæti hagsmuna almennings sem forseti. Trump kunni ekki að þjóna öðru fólki því hann sé alltof upptekinn að því að þjóna sjálfum sér.

Svona er hægrið að reyna að koma höggi á hann

Stuðningsmenn Trump hafa nú gefið Walz viðurnefnið Túrtappa Tim, en það má rekja til þess að Walz studdi við frumvarp sem gerði skólum í Minnesota skylt að bjóða upp á tíðarvörum á öllum salernum. Lögin tóku gildi í ársbyrjun og orðalag þeirra tryggja aðgengi trans nemenda að tíðarvörum með því að vísa til þess að tíðarvörur þurfi að standa öllum nemendum sem hafa á klæðum til boða. Repúblíkanar reyndu að fá frumvarpinu breytt svo það ætti aðeins við um salerni stúlkna, en það gekk ekki eftir. Þar með eru túrtappar á salernum drengja líka.

Demókratar hafa furðað sig á viðurnefninu, enda geti þetta varla talist móðgun. Repúblikanar hafa bent á að það sé ekki eitt og sér móðgun heldur að túrtappar séu líka til staðar á salernum drengja.

Síðan hefur athygli verið vakin á því að Walz hætti í hernum í stað þess að taka þátt í stríðsátökum í Írak. Þar með hafi hann gerst sekur um föðurlandssvik. Hann hafi verið herforingi yfir deild sinni og ekki fylgt þeim út. Þetta er í raun rétt, en Walz hafði þó áður ákveðið að snúa sér að stjórnmálum enda var hann kosinn á þing ári eftir að hann hætti í hernum. Aðrir foringjar sömu herdeildar hafa þó komið honum til varna. Walz hafi verið frábær hermaður og hafði fullan rétt á því að hætta þegar hann gerði. Hann hafi rætt við kollega sína áður en hann hætti og vegið og metið hvaða þýðingu framboð hans til þings hefði. Eftir að Walz settist á þing setti hann sig á móti áformum þáverandi forseta, George W. Bush, um að fjölga hermönnum í Írak.

Eins hafa repúblikanar hjólað í Walz fyrir að hafa stutt við stefnumál um að dæmdir sakamenn fái að kjósa. Hann skrifaði árið 2023 undir frumvarp sem tryggði dæmdum mönnum í Minnesota, sem höfðu afplánað óskilorðsbundna refsingu sína, kosningarétt að nýju. Það er þannig víða í Bandaríkjunum að þegar fólk er sakfelld missir það borgaraleg réttindi sín á borð við kosningarétt, kjörgengi, að mega sitja í kviðdóm eða að mega eiga vopn. Walz er ekki hlynntur  þessu enda hefur það valdið því að margir eru sviptir réttinum að taka þátt í lýðræðinu til frambúðar og þrátt fyrir að hafa afplánað refsingu sína og jafnvel snúið alfarið við blaðinu. Demókratar hafa bent á að þessi gagnrýni sé sérstaklega kaldhæðin í ljósi þess að forsetaefnið Trump hefur verið sakfelldur fyrir glæp.

Önnur gagnrýni lítur að því að Harris hafi valið Walz út af gyðingahatri. Hinn aðilinn sem hafi komið til greina. Josh Shapiro, sé gyðingur og því hafi hann ekki orðið fyrir valinu. Shapiro hefur þó sjálfur vísað þessum ásökunum á bug.

Á þeim rétt rúma sólarhring sem liðinn er síðan tilkynnt var að Walz yrði varaforsetaefni demókrata hafa hægri menn staðið í ströngu í að reyna að koma höggi á hann. Heilt yfir hafa þessar tilraunir ekki náð þeim árangri sem stefnt var að, en enn eru nokkrir mánuðir í kjördag. Það hlakkar þó í demókrötum sem benda á að flestar þær tilraunir sem greint er frá að ofan séu þvert á móti til þess fallnar að kynna kosti Walz fram yfir varaforsetaefni repúblikana.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Þýskur leigubílstjóri dæmdur fyrir tvöfalt morð á Asóreyjum en málið samt talið vera óleyst ráðgáta

Þýskur leigubílstjóri dæmdur fyrir tvöfalt morð á Asóreyjum en málið samt talið vera óleyst ráðgáta
Pressan
Fyrir 2 dögum

Telja að allt að 18 km þykkt demantalag umlyki Merkúr

Telja að allt að 18 km þykkt demantalag umlyki Merkúr
Pressan
Fyrir 3 dögum

Missti starfið eftir rifrildi um Meghan

Missti starfið eftir rifrildi um Meghan
Pressan
Fyrir 3 dögum

Undir norsku steinhringjunum var leyndarmál

Undir norsku steinhringjunum var leyndarmál