AP-fréttastofan greinr frá því að árás hafi verið gerð á heimili fjölskyldu í Deir al-Balah þar sem móðir bjó ásamt sex börnum sínum. Öll létust þau í árásinni en yngsta barnið var eins og hálfs árs og þau eldri voru fimmburar, tíu ára gamlir.
Afi barnanna var ómyrkur í máli þegar rætt var við hann eftir árásina og sagði hann aðkomuna hafa verið hræðilega: „Þau voru öll sett í sama líkpokann eftir árásina. Hvað gerðu þau? Drápu þau einhverja gyðinga? Mun þetta skapa Ísraelsmönnum öryggi?“
Anthony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er kominn til Ísraels þar sem hann freistar þess að ná fram vopnahléi. Viðræður hafa staðið yfir síðustu daga en babb kom í bátinn í gær þegar forsvarsmenn Hamas sögðu að Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, hefði sett fram óraunhæfar kröfur og meðal annars neitað að lofa því að draga allt herlið sitt til baka.