fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Pressan

Rúmlega 500 ára gömul ráðgáta sögð líklega loksins hafa verið leyst

Pressan
Sunnudaginn 18. ágúst 2024 21:00

Týnda nýlendan - Teikning frá 19.öld sem lýsir því þegar uppgötvaðist árið 1590 að íbúar nýlendunnar Roanoke í vesturheimi voru allir horfnir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rétt undan ströndum Norður-Karólínu ríkis í Bandaríkjunum er eyja sem heitir Roanoke. Áður en Bandaríkin urðu til var þar stofnuð nýlenda árið 1587. Stofnandinn var enski landkönnuðurinn Sir Walter Raleigh. Nýlendan var hins vegar aðeins við lýði í 3 ár fram til 1590 en þá einfaldlega hurfu allir íbúar hennar. Hvað varð um þá hefur aldrei uppgötvast en um þessar mundir eru fornleifafræðingar sagðir líklega hafa leyst þess rúmlega 500 ára gömlu ráðgátu.

Vefmiðilinn Allthatsinteresting fjallar um málið.

Þar segir að íbúarnir hafi skilið eftir sig tvær vísbendingar. Annars vegar var orðið „Croatoan“ skorið út í tréstaur og hins vegar orðið „Cro“ skorið út í tré.

Croatoan var þáverandi nafn á eyju í nágrenni við Roanoke en fyrrnefnda eyjan heitir í dag á ensku Hatteras Island.

Þessi útskurður kom því af stað tilgátu um að íbúarnir sem hurfu frá Roanoke hafi eindfaldlega fært sig yfir til nágrannaeyjunnar.

Rannsóknir fornleifafræðingsins Scott Dawson benda til að sú hafi einmitt verið raunin en hann hefur rannsakað svæðið í fjölda ára.

Dawson er einmitt uppalinn á Roanoke en ætt hans getur rakið búsetu sína þar allt aftur til 17. aldar og þykir hann því vel fallinn til þess að rannsaka hvað varð um íbúana sem hurfu svo skyndilega árið 1590.

Upphaflega kenningin líklega rétt allan tímann

Dawson segir að nýlendan týnda hafi í raun aldrei týnst og segir að fyrst nú hafi fundist nægilega sterkar sannanir með fornleifafræðirannsóknum fyrir því að upphaflega kenningin um hvað varð um íbúana hafi verið rétt allan tímann.

Sjálfboðaliðar og fornleifafræðingar hófu uppgrefti á Hatteras-eyju árið 2009 en fjórum síðar fóru að finnast sannanir um að íbúar nýlendunnar á Roanoke hefðu fært sig þangað.

Meðal annars fundust koparhringur, handföng af sverðum, eyrnalokkar og gler, allt frá 16. öld og var uppruni allra þessara minja rakinn til Englands.

Dawson segir að hann hafi alltaf talið að íbúarnir hafi flutt sig yfir til Hatteras en ekki átt von á því að það myndi takast að færa sönnur á það.

Mark Horton er kollegi Dawson og hefur aðstoðað hann við rannsóknina. Hann telur ekki ólíklegt að nýlendan á Roanoke hafi verið leyst upp  meðal annars í kjölfar ágreinings og erfiðra aðstæðna og að hluti íbúanna hafi farið til Hatteras en aðrir haldið lengra í burtu.

Lifðu í friði með frumbyggjum

Íbúar Hatteras, sem eins og áður segir hét Croatoan á þessum tíma, voru flestir frumbyggjar en nýlendubúarnir sem komu frá Roanoke voru flestir frá Englandi.

Horton telur líklegt að samlögun nýju íbúanna við samfélag frumbyggjanna hafi gengið vel. Merki um járnsmíði hafa einnig fundist á Hatteras og Horton segir rannsóknina gefa til kynna að hvítu nýlendubúarnir og afkomendur þeirra hafi búið meðal frumbyggjanna á Hatteras fram eftir 17.öld.

Upphaflega fluttu 115 karlar, konur og börn frá Englandi til Roanoke.

Dawson segir að íbúarnir hafi aldrei í raun og veru týnst heldur aðeins flutt sig um set en dulúðin um týndu nýlenduna hafi í raun ekki orðið til fyrr en á fyrri hluta 20. aldar. Dulúðin hafi því verið tilbúningur þeirra tíma.

Hlé varð á rannsókninni í Covid-faraldrinum en hún er farin aftur í gang og fyrr á þessu ári fundust meðal annars leirker og skartgripir úr kopar.

Rannsóknin og þær minjar munir og ummerki sem hafa fundist á meðan henni hefur staðið renna frekari stoðum undir að íbúarnir í Roanoke hafi átt samskipti og viðskipti við frumbyggja í nágrenninu. Það bendir enn frekar í þá átt að íbúarnir í Roanoke hafi fært sig yfir á svæði vinveittra frumbyggja þegar þeir þurftu að færa sig um set.

Umfjöllun Allthatsinteresting í heild sinni er hægt að nálgast hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt