Flestir eiga sér sína uppáhaldsstellingu þegar þeir sofa. Sumir vilja helst sofa á maganum, aðrir á bakinu, enn aðrir á hægri hliðinni og enn aðrir á þeirri vinstri. Þetta er oft mynstur sem fylgir fólki frá vöggu til grafar.
Þumalputtareglan er að finna sér svefnstellingu sem veitir líkamanum sem mesta hvíld. En það er þó ekki þar með sagt að líkaminn geri ekki mistök varðandi val á svefnstellingu.
Vísindin hafa komið með margar niðurstöður um kosti hinna mismunandi svefnstellinga og mæla með ákveðnum svefnstellingum fyrir ákveðna hópa. Til dæmis er mælt með að ungabörn sofi á bakinu til að koma í veg fyrir vöggudauða. Fólki sem þjáist af bakflæði og brjóstþembu er ráðið frá því að sofa á bakinu. Barnshafandi konum er ráðlagt að sofa á hliðinni.
Nú er kannski hægt að bæta enn einni ráðleggingunni á listann en samkvæmt henni er best að sofa á vinstri hliðinni. Við fyrstu sýn virðist það kannski ekki skipta miklu máli á hvorri hliðinni maður sefur. Við lítum jú eins út hægra og vinstra megin. Hver er þá munurinn á því að sofa á hægri hliðinni eða þeirri vinstri?
Svarið er að finna í innyflum okkar. Maginn verður rólegri ef sofið er á vinstri hliðinni og magasýran á erfiðara með að komast upp vélindað sem er sérstaklega óþægilegt fyrir fólk sem glímir við bakflæði og brjóstþembu.
Dr. John Doullard, læknir, segir að það að sofa á vinstri hliðinni létti álagið á hjartað og auðveldi meltinguna.