Þetta er mat fulltrúa leyniþjónustu Suður-Kóreu en þeir veittu þingmönnum landsins skýrslu um stöðu mála handan landamæranna á dögunum. Í skýrslunni kom einnig fram að læknar forsetans væru byrjaðir að leita að lyfjum erlendis til að gefa honum.
Kim, sem er fertugur að aldri, hefur lengi verið sagður drekka og reykja óhóflega og á fjölskylda hans sér sögu um hjartasjúkdóma. Bæði faðir hans og afi, sem voru leiðtogar landsins á undan honum, dóu af völdum hjartasjúkdóma.
Ef marka má nýlegar myndir af einræðisherranum og þær bornar saman við myndir frá árinu 2021 virðist hann hafa þyngst töluvert.
Fundur suðurkóresku leyniþjónustunnar og þingmanna landsins fór fram fyrir luktum dyrum en fjölmiðlar í Suður-Kóreu hafa þó greint frá efni fundarins eftir samtöl við heimildarmenn.
Kom meðal annars fram að Kim væri 172 sentímetrar á hæð og hann væri að líkindum rétt tæp 140 kíló í dag. Telur leyniþjónustan að óheilbrigður lífsstíll einræðisherrans spili þar stórt hlutverk.