Breskir fjölmiðlar hafa greint frá því að hjúkrunarfræðinemi þar í landi hafi verið sakfelldur fyrir að hafa í hyggju að gera sjálfsmorðsárás á spítalanum þar sem hann starfaði og var í verknámi.
Sky News greinir frá því að um að sé að ræða karlmann að nafni Mohammad Sohail Farooq. Hann er 28 ára gamall og var handtekinn í janúar á síðasta ári fyrir utan St. James sjúkrahúsið í borginni Leeds með heimagerða sprengju sem kom í ljós að var vel nothæf en hún innihélt tæplega 10 kíló af sprengiefni.
Einnig fundust í fórum hans tveir hnífar, límband og eftirlíking af skotvopni.
Fyrir dómi kom fram að Farooq hafi heillast mjög af hugmyndum öfgasinnaðara íslamista og hafi ætlað sér að verða píslarvottur með því að framkvæma árásina. Hann sagði hins vegar að sjúklingur sem hann hitti fyrir utan spítalann hafi sýnt honum mikla góðmennsku og hlýju og náð að sannfæra hann um að hætta við fyrirætlanir sínar.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að Farooq horfði á myndbönd á Tiktok sem einkenndust af gyðingahatri og hafði tekið mynd með síma sínum af skilti þar sem tengsl gyðinga við spítalann voru tíunduð.
Reiði hans er sögð hafa beinst að samstarfsfólki hans og kennurum þar sem hann hafði verið látinn endurtaka hluta námsins á þeim grundvelli að hann hafði margsinnis tilkynnt veikindi og ekki mætt og þar af leiðandi ekki náð tilskyldum prófum. Mun hann hafa sent fólkinu nafnlaus níðbréf.
Farooq ætlaði sér í fyrstu að gera árás á herstöð en hætti við vegna þess hversu mikil öryggisgæsla var við stöðina og beindi sjónum sínum að spítalanum í staðinn. Umræddan dag hafði hann sent einum hjúkrunarfræðingi á spítalanum skilaboð með sprengjuhótun til að lokka sem flesta út á bílastæði við spítalann þar sem hann ætlaði sér að sprengja sjálfan sig og nærstadda í loft upp.
Viðkomandi hjúkrunarfræðingur sá hins vegar ekki skilaboðin fyrr en um klukkutíma síðar og byggingin var aldrei rýmd á meðan Farooq beið út á bílastæði. Þá ákvað hann að bíða eftir vaktaskiptum til að myrða sem flesta en áður en kom að þeim varð áðurnefndur sjúklingur, James Newby, á vegi hans og sannfærði hann um að hætta við.
Newby hafði brugðið sér út af spítalanum til að fá sér ferskt loft. Hann segist hafa séð strax að eitthvað mikið væri að hjá Farooq sem hafi greinilega verið í miklu uppnámi. Hann hafi ruggað sér fram til og baka. Newby segist því hafa ákveðið að gefa sig á tal við hann og eftir ósköp hversdagslegt spjall hafi Farooq sýnt honum sprengjuna.
Newby náði að sannfæra Farooq um að færa sig frá inngangi að spítalanum, þar sem hann stóð, og setjast með sér á bekk spölkorn í burtu. Eftir þriggja klukkutíma samræður þeirra á milli leyfði Farooq Newby að hringja í lögregluna. Þegar hún mætti á vettvang faðmaði Newby Farooq að sér og hrósaði honum fyrir að hafa brugðist rétt við.
Newby tjáði lögreglu að hann hann væri í hálfgerðu losti yfir því að hafa náð að sannfæra Farooq um að gefast upp.
Saksóknari segir Farooq vera afar hættulegan og það sé ánægjulegt að hann hafi verið sakfelldur.