fbpx
Fimmtudagur 04.júlí 2024
Pressan

Heilaæxli breytti ástríkum eiginmanni í ofbeldisfullt skrímsli

Pressan
Mánudaginn 1. júlí 2024 22:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við vorum hamingjusöm, okkur gekk vel í vinnu, strákarnir okkar blómstruðu og líf okkar var skemmtilegt. En svo fór ég að taka eftir breytingum á persónuleika hans,“ segir Michele Kenber 58 ára ekkja.

Michele missti eiginmann sinn, Dave, úr krabbameini árið 2017, en á stuttum tíma hafði þessi ástríki og kærleiksríki eiginmaður breyst í afbrýðisaman ofbeldismann sem hún neyddist til að fá nálgunarbann gegn. Var það ekki fyrr en skömmu fyrir andlát hans að í ljós komu þrjú æxli í höfðinu, nálægt þeim stöðvum heilans sem stjórna félagsfærni, dómgreind og hegðun.

Daily Mail ræðir við Michele en Dave starfaði allan sinn feril í fjármálageiranum í Suður-Afríku.

Grunsamlegur blettur á handleggnum

Það var árið 2013 að Dave tók eftir grunsamlegum bletti á handleggnum og fór það svo að Michele pantaði tíma fyrir hann í vefjasýnatöku til að athuga hvort um húðkrabbamein væri að ræða. Hann afpantaði tímann á síðasta stundu og láðist að panta annan tíma, enda dofnaði bletturinn smám saman og hvarf á nokkrum mánuðum. Það var svo um ári síðar að Michele fór að taka eftir miklum breytingum á eiginmanni sínum.

Á aðeins tólf mánuðum fór hann úr því að vera kærleiksríkur eiginmaður og faðir í að vera stjórnsamur og afbrýðisamur.

„Það ríkti mikið traust í hjónabandinu en skyndilega fór hann að verða mjög örvæntingarfullur og setja til dæmis út á fötin sem ég klæddist. Svo varð hann mjög uppstökkur við börnin og þetta þróaðist þannig að það var orðin algjör martröð að búa með honum.“

Michele segir að Dave hafi komið fyrir njósnabúnaði í tölvunni hennar, sett staðsetningarbúnað á bílinn og þá hafi hann þráspurt hana um hvað hún hefði verið að gera í vinnunni og í samskiptum við hvern hún hefði verið. Rifjar hún upp að eina nóttina hafi hún vaknað og þá hafi hann staðið yfir henni og beint loftbyssu að höfði hennar.

Hegðunin breyttist strax

Gekk þetta svo langt að hún hringdi nokkrum sinnum á lögreglu vegna ógnandi og ofbeldisfullrar hegðunar hans og endaði hún á að fá nálgunarbann gegn honum árið 2015. Það var svo í október 2016 að Dave hneig niður í vinnunni og var hann fluttur á sjúkrahús í kjölfarið. Það var þá sem í ljós kom að hann var með þrjú æxli í heilanum.

Læknar töldu að húðkrabbamein sem byrjaði á handleggnum hafi náð að dreifa sér og var meinið orðið illviðráðanlegt þegar það kom í ljós. Dave gekkst þó undir aðgerð þar sem æxlin voru fjarlægð og er skemmst frá því að segja að hegðun hans breyttist strax.

„Ég sé breytinguna um leið. Hann varð aftur eins og hann var áður,“ segir hún. Krabbameinið hafði þó dreift sér víðar um líkamann og var orðið ólæknanlegt. Dave flutti aftur inn til fjölskyldu sinnar þar sem hann dvaldi síðustu fjóra mánuði ævi sinnar, uns hann lést þann 26. janúar 2017. Michele segist vera mjög þakklát fyrir þann tíma sem þau áttu saman áður en hann lést.

Tekið er fram í umfjöllun Daily Mail að einn af hverjum þremur sem greinast með heilaæxli geti upplifað persónuleikabreytingar. Segir Michele að læknirinn hafi spurt hana hvort hún hefði tekið eftir persónuleikabreytingum hjá honum og þá hafi þetta allt komið heim og saman.

Michele segir mikilvægt að fólk sé vakandi fyrir einkennum krabbameins og láti tékka reglulega á sér. Hvetur hún einkum karla til að gera það og nefnir að margir karlar séu allt of kærulausir þegar kemur að eigin heilsu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Stjörnufræðingar sáu ofurmassamikið svarthol vakna til lífsins

Stjörnufræðingar sáu ofurmassamikið svarthol vakna til lífsins
Pressan
Fyrir 4 dögum

Fundu að minnsta kosti 150.000 tonn af vatni á toppi hæstu eldfjallanna á Mars

Fundu að minnsta kosti 150.000 tonn af vatni á toppi hæstu eldfjallanna á Mars