fbpx
Föstudagur 28.júní 2024
Pressan

Sonur Sam hélt stórborginni í heljargreipum – Smávægileg mistök urðu honum að falli

Ragna Gestsdóttir
Þriðjudaginn 25. júní 2024 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Yfir 13 mánaða tímabil á árunum 1976 og 1977 voru íbúar New York borgar skelfingu lostnir sökum raðmorðingja sem þekktur var sem „sonur Sams“, nafn sem hann gaf sjálfum sér í háðsbréfum sem hann skrifaði til lögreglu og fjölmiðla á meðan morðæði hans stóð yfir. 

Morðinginn, sem lét til skarar skríða í efri hverfum borgarinnar, beindi athygli sinni einkum  að ungum konum með axlarsítt, dökkt hár. Morðæði hans hélt borginni í heljargreipum og margar ungar konur með svipað útlit og fórnarlömbin brugðu á það ráð að klippa hár sitt og lita.

Sonur Sam myrti sex manns og særði sjö aðra áður en borin voru kennsl á hann og hann handtekinn. Vísbendingin sem kom lögreglu loksins á spor hans var ekki stór, stöðumælasekt sem gefin var út nálægt vettvangi síðustu árásar Sonar Sams og benti á hann sem David Berkowitz. Berkowitz sem búsettur var í Yonkers sagði lögreglunni að púki sem hefði tjáð sig í gegnum geltandi hund hefði fyrirskipað honum að drepa.  Þegar hann var handtekinn spurði hann lögreglumennina: „Hvað tók ykkur svona langan tíma?“

Saga Berkowitz, sem er nú 70 ára og afplánar 365 ára dóm innan fangelsismúra,vofir enn yfir sögu New York borgar. Mál hans er eitt af fjölmörgum sönnum sakamálum vestanhafs sem rifjuð eru upp í tímariti People, True Crime Stories í tilefni af 50 ára afmæli tímaritsins.

Rifjuð er upp í heild sinni umfjöllun úr tímaritinu frá 20. júní 1977, Son Sam Stalks New York.  

Það var skítkalt, rétt eftir miðnætti 30. janúar síðastliðinn. Johnny Diel og kærasta hans Christine Freund sátu í Pontiac Firebird 1976 bíl hans á yfirgefinni götu í Forest Hills, Queens, og biðu þess að bíllinn hitnaði. Þau voru nýbúin að borða eftir að hafa séð kvikmyndina Rocky og Johnny, 30 ára gamall barþjónn, hlakkaði til að fara og djamma. Hann hallaði sér að Chris, kyssti hana og sagði: „Við erum að fara á Masonic ballið.“ Hún svaraði: „Allt í lagi, elskan.“

Hann sneri sér frá henni og ýtti þrisvar á bensíngjöfina, næst glumdi við hávær hvellur og Chris féll í fang hans án þess að gefa frá sér hljóð. Johnny öskraði nafn hennar, lagði handlegginn utan um hana og dró hana niður í sætið. Þá sá hann blóð á höndum sér og heyrði hvellið í næsta skoti þegar .44 kalíbera kúla grófst í mælaborðið við hlið höfuðs hans.

„Allt í einu var ekkert hljóð. Ég opnaði hurðina og hljóp niður götuna með hendurnar yfir höfðinu og öskraði: „Kærastan mín er slösuð!“ Ég leit aldrei til baka. Ég var of hræddur. Ég sá aldrei hver gerði þetta.“

Fjórum klukkutímum síðar var Chris Freund, 26 ára ritari á Wall Street ritari látin. Þau höfðu ætlað að tilkynna um trúlofun sína hálfum mánuði seinna. Freund var orðin sjötta þekkta fórnarlambið, annað til að deyja, morðingja sem drap með .44 kalíbera byssu, draugur sem var orðinn eftirlýstur í einni stærstu mannleit í sögu borgarinnar.

Þrjú fórnarlömb Sonur Sams: Donna Lauria, Christine Freund og Virginia Voskerichian.

Frá 29. júlí síðastliðnum hefur morðinginn, sem er talinn vera ungur maður á tvítugsaldri eða snemma á þrítugsaldri, látið til skarar skríða sex sinnum í Bronx og Queens, drepið fimm og sært fjóra, þar á meðal 18 ára konu sem nú er lömuð neðanmittis.

Nokkur fórnarlömb hans voru skotin þegar þeir sátu í kyrrstæðum bílum; aðra skaut hann einfaldlega á götunni. Flest hafa verið ungar konur með brúnt axlarsítt hár og hann hefur skotið þær með öflugri „Bulldog“-byssu sem haldið var í bardagastíl; hné beygð og báðar hendur á byssunni.

„Hann er tækifærissinni,“ segir aðstoðaryfirlögregluþjónninn Timothy J. Dowd, sem fer fyrir sérsveit um 50 rannsóknarlögreglumanna sem leita að morðingjanum í borginni.

„Hann drepur þann sem hann hefur tækifæri til að drepa. Þetta eru óskipulagðir glæpir. Hér höfum við mann sem við þekkjum ekki, sem hefur drepið fullt af fólki og er óvenjulegur í þeim skilningi að hann er ekki hættur. Við viljum finna einhverja leið til að fá þennan mann til að hringja í okkur.  Þetta er eins og gíslaviðræður. Ef þú færð ekki gaurinn til að tala við þig, hvað geturðu gert?“

Dowd, sem er 61 árs, með 37 ára hermennsku að baki og meira en 1.000 morðrannsóknir, var kallaður inn í málið í apríl eftir að morðinginn skildi eftir sig handskrifaða miða nálægt líkum tveggja síðustu fórnarlamba sinna. Í þeim lýsti morðinginn sjálfum sér á dularfullan hátt sem „Sonur Sams“ og varaði lögregluna við að hann myndi halda áfram að drepa frekar en að vera handtekinn.

Sendi handskrifuð bréf til lögreglu og fjölmiðla

Nýlega tók málið enn furðulegri stefnu þegar Sonur Sam sendi hrollvekjandi fjögurra blaðsíðna bréf til dálkahöfundar New York Daily News, Jimmy Breslin.

„Sam er þyrstur strákur,“ skrifaði morðinginn, „og hann leyfir mér ekki að hætta að drepa fyrr en hann er orðinn saddur af blóði. Síðan bætti hann við, ógnvekjandi, „Ég elska vinnuna mína. Þú munt sjá handaverk mitt í næsta verki.“ 

Eitt af bréfunum.

Dowd og félagar hans hafa skoðað bréfin í leit að vísbendingum. Með hjálp sálfræðinga og geðlækna drógu þeir upp mynd af morðingjanum og lýstu honum sem ofsóknarkenndum geðklofa sem er „sennilega feiminn og skrýtinn, einfari sem er vanhæfur í að koma á persónulegum tengslum, sérstaklega við ungar konur.“

Lögreglan vill að geðheilbrigðisdeild borgarinnar afhendi skrár yfir alla einstaklinga sem glíma við geðræn vandamál sem svara lýsingu morðingjans, en hafa orðið fyrir vonbrigðum vegna lagalegra takmarkana.

„Þessi friðhelgi einkalífs er erfið að eiga við,“ segir Dowd. „Við erum ekki að biðja um greiningar eða neitt; okkur langar bara að vita hvort einhver sé á skrá sem eigi við lýsinguna á þessum manni.“

Hingað til hafa menn Dowd skoðað þúsundir handtökuskýrslna, skoðað meira en 2.000 símaábendingar, framkvæmd skotpróf á um 60 skammbyssum, skoðað meira en 100 rithandarsýni og tekið meira en 1.000 viðtöl. Þeir hafa leitað til geðsjúkrahúsa, leigubílstjóra, dráttarbílstjóra (út frá þeim möguleika að morðinginn hafi lent í slysi við flótta af vettvangi) og alla þekkta eigendur skráðra .44 byssuvéla.

Þeir hafa rannsakað bakgrunn allra fórnarlambanna í von um að finna rauða þráðinn sem gæti leyst málið. Og þeir hafa dáleitt að minnsta kosti tvo af þeim sem lifðu af skotárásirnar til að reyna að grafa upp smáatriði sem þeir gætu hafa gleymt.

Dowd, sem er með meistaragráðu frá Bernard Baruch viðskiptaháskólanum í New York og þénar meira en 40.000 dali á ári [um 225.000 dali framreiknað til 2024], lítur á mannleitina frekar sem skrifræðisæfingu en ekta löggu og bófa sögu.

„Við fylgjum hefðbundinni tegund rannsókna,“ segir hann. „Við gerum það rækilega og það þýðir að við förum yfir allt. Ef einhver lögreglumaður grípur þennan gaur við reglubundið eftirlit lýkur rannsókn okkar. En við bíðum ekki eftir að verða heppin. Við búum okkur undir að verða heppnir.“

Jafnvel með óumflýjanlegri yfirleguvinnu er starfsandinn í sérsveitinni áfram mikill.

„Dowd býst við að við klárum verkið,“ útskýrir rannsóknarfulltrúinn Bill Clark, „en hann er sanngjarn og leggur mikið á sig sjálfur. Ég hef aldrei unnið að máli þar sem ég hef séð svo marga jafn áhugasama. Ég fór á sjúkrahúsið til að sjá stúlkuna sem er lömuð og ég get samsvarað henni einstaklingum í mínu eigin lífi. Þetta eru saklausar stúlkur.“

Dowd vinnur sjö daga vikunnar, oft allt að 16 tíma á dag, og reynir að eyða mestum hluta frítíma síns heima með eiginkonu sinni og fjórum börnum, á aldrinum 13 til 25 ára. Hann horfir ekki á glæpaþætti í sjónvarpinu. 

„Mér líkar ekki við að horfa á glæpasögur. Þú verður að komast í burtu frá því sem þú ert að vinna við.“

Þar sem Sonur Sam gengur enn laus er auðvitað orðið meira vandamál að komast frá vinnu. „Símarnir okkar lýsa upp eins og jólatré,“ sagði hann eftir að morðinginn sendi bréf sitt til Breslin. „Þetta er verra en við höfum nokkurn tíma séð.“

En þrátt fyrir þá staðreynd að frá og með síðustu viku höfðu menn hans engar vísbendingareftir margra mánaða rannsókn, er Dowd þess fullviss að málið verði leyst. „Það er enginn vafi í mínum huga að við finnum þennan mann,“ segir hann. „Það eina sem við þurfum er stefna að fara í. Allir þessir hlutir munu virðast svo einfaldir þegar við leysum málið, við munum velta fyrir okkur hvers vegna við sáum það ekki strax.“

Sársauki og reiði taka yfir þegar hann heimsækir leiði unnustu sinnar

Johnny Diel gæti líka velt því fyrir sér. Oft á laugardagskvöldum leitar hann í Forest Hill hverfið þar sem Chris Freund kærasta hans til sjö ára var skotin til bana.

„Mér finnst þessi strákur ekki eiga skilið að lifa,“ segir hann. „Ég held áfram að vona að hann muni sjá bílinn minn aftur og stoppa til að skoða hann. Chris var fyrsta stelpan sem ég elskaði virkilega. Það er eins og þú hafir eitthvað sem tilheyrir þér og einhver kemur og tekur það í burtu. Og í þessu tilfelli geturðu ekki gert neitt í því. Núna hangi ég bara með strákum frá Ridgewood, Queens, þar sem ég bý. Flestir þeirra eru giftir núna.“

Alltaf þegar hann hugsar til baka til þessa örlagaríka janúarkvölds, og það gerir hann oft, taka sársauki og reiði yfir.

„Ég segi alltaf við sjálfan mig: „Af hverju fórstu út? Hvers vegna fórstu ekki annað?“ En það er of seint. Ég fer í kirkjugarðinn tvisvar, þrisvar í viku, og ég reyni að færa Chris rauðar rósir í hverri viku. Ég stend við gröfina og segi við sjálfan mig: „Er þetta í alvörunni?“ Svo geng ég í burtu og veit að þetta er búið.“ 

David Berkowitz árið 2009. Beiðni hans um reynslulausn var neitað í 12. sinn þann 28. maí síðastliðinn.

Þann 10. ágúst 1977 var David Berkowitz, Sonur Sams, handtekinn eftir 13 mánaða morðæði hans. Bílastæðasekt kom lögreglunni loksins á slóð hans. Berkowitz, sem er póststarfsmaður og fyrrum hermaður í hernum, játaði sekt sína í sex ákæruliðum um annars stigs morð og sjö tilraunir til annars stigs morðs.

Þó að hann hafi upphaflega sagt að honum hafi verið skipað að drepa af hundi nágranna síns Sam, viðurkenndi hann síðar að sagan væri gabb. Árið 1987 snérist hann til kristinnar trúar og árið 2002 varð hann gjaldgengur fyrir reynslulausn. Henni hefur ítrekað verið hafnað. Berkowitz er nú 70 ára og er fangi í Shawangunk-fangelsinu í Hudson-dalnum í New York.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Bóndi er dauðþreyttur á túristum – Hótar þeim með gröðum hrútum

Bóndi er dauðþreyttur á túristum – Hótar þeim með gröðum hrútum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Leigði íbúð á Airbnb – Kjaftstopp yfir klikkuðum kröfum gestgjafans korteri fyrir brottför

Leigði íbúð á Airbnb – Kjaftstopp yfir klikkuðum kröfum gestgjafans korteri fyrir brottför
Pressan
Fyrir 4 dögum

Lögsótti fyrrum unnusta sinn – Ástæðan er ótrúleg

Lögsótti fyrrum unnusta sinn – Ástæðan er ótrúleg
Pressan
Fyrir 4 dögum

Vísindamenn við Harvard telja að geimverur haldi til á jörðinni

Vísindamenn við Harvard telja að geimverur haldi til á jörðinni
Pressan
Fyrir 5 dögum

Fundu fjarlægustu sprengistjörnuna til þessa

Fundu fjarlægustu sprengistjörnuna til þessa
Pressan
Fyrir 5 dögum

Hryllingurinn í Noregi – Tveir skotnir til bana og síðan voru sjúkraflutningamennirnir einnig myrtir

Hryllingurinn í Noregi – Tveir skotnir til bana og síðan voru sjúkraflutningamennirnir einnig myrtir