Þess í stað eru foreldrar farnir að láta börnin fá pening eftir þörfum sem getur verið varasöm þróun, að mati Idu Mariu Moesby sem starfar sem hagfræðingur neytendamála hjá bankanum.
„Ef börn og unglingar læra ekki á það hvernig á að sjá um fjármálin geta þau lent í „lúxusgildrunni“ þar sem þau eyða um efni fram síðar á lífsleiðinni og lenda í skuldavandræðum,“ segir Ida í samtali við TV2.
Í fréttinni er vísað í könnun sem gerð var meðal rúmlega þúsund foreldra barna á aldrinum 6 til 17 ára. Leiddi hún í ljós að um þriðjungur barna fær engan vasapening heldur skaffa foreldrarnir þeim pening eftir þörfum, til dæmis þegar farið er í bíó eða þegar þau sjá eitthvað sem þau vilja kaupa.
Anne Juel Jørgensen, ráðgjafi hjá Danske Bank, segir að mörg börn fái ekki nógu góða þjálfun heima fyrir þegar kemur að fjármálum.
„Það er bara hægt að nota sama peninginn einu sinni. Ef mamma og pabbi millifæra peninginn strax inn á reikninginn þá eru líkur á að börnin taki peningum sem sjálfsögðum hlut, eitthvað sem er alltaf þarna,“ segir Anne og bætir við að vasapeningafyrirkomulagið sé betra. Með því læri börn að spara og safna fyrir því sem þau virkilega langar í.