fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Pressan

Hún sleit trúlofuninni þegar hún sá hvað hann geymdi undir rúminu

Pressan
Sunnudaginn 16. júní 2024 21:37

Megan flutti strax út þegar hún sá hvað hann geymdi undir rúminu. Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í augum mínum og fjölskyldu minnar er hann ástríkur og umhyggjusamur maður,“ sagði ráðvillt og öskureið Megan McAllister skömmu eftir að unnusti hennar, Philip Markoff, hafði verið handtekinn. Allir þekktu hann sem greindan og hæglátan mann sem helgaði læknisfræðinámi og keiluiðkun nær allan tíma sinn. En undir yfirborðinu reyndist hann vera allt öðruvísi.

Þegar lögreglan réðst inn á heimili þeirra sagði Megan að hún væri viss um að gildra hefði verið lögð fyrir Philip. „Hann gæti ekki gert flugu mein,“ sagði hún. Nokkrum klukkustundum síðar sýndu lögreglumenn henni hvað þeir fundu undir hjónarúminu þeirra. Þá rann upp fyrir henni að Philip hafði lifað tvöföldu lífi.

Philip Markoff. Mynd:Lögreglan

Hann fékk viðurnefnið „Craiglist morðinginn“ hjá bandarískum fjölmiðlum sem fjölluðu mikið um mál hans, læknanemans sem hafði svikið unnustu sína, fjölskyldu og nágranna.

Lögreglan hafði rannsakað mál hans ítarlega áður en látið var til skara skríða og hafði aflað gagna sem sýndu að á einni viku hafði hann myrt fylgdarkonu, rænt nuddstofu og bundið og keflað strippara. Lögreglan taldi að hann hefði fundið fórnarlömbin á Craigslist.

Sú eina sem hefur elskað hann

Fréttamenn streymdu til bæjarins Sherrill í New York eftir handtökuna en þar ólst Philip upp. Á bæjarskiltinu stendur, „Minnsti bærinn í New York ríki“. Æskuvinir og nágrannar sögðu fréttamönnum að Philip hefði verið rýr vexti, bráðgreindur og feiminn á yngri árum og hefði aldrei þorað að tala við stelpur. Þeim fannst óskiljanlegt að hann hefði getað gert svona hryllilega hluti eins og fjölmiðlar skýrðu frá.

Philip var staðráðinn í að verða læknir og 2005 hóf hann undirbúningsnám fyrir læknisfræðinám í State University of New York. Þar kolféll hann fyrir Megan, sem algjör andstaða hans, ófeiminn og hispurslaus. Það var hún sem bauð honum á stefnumót og spurði hvort hann vildi verða kærastinn hennar. Hún hafði ekki hugmynd um að hún var fyrsta kærastan hans. „Ég er sú eina sem nokkru sinni hefur elskað hann,“ sagði hún síðar.

Hluti af ránsfeng Philip. Mynd:Lögreglan

Það tognaði vel úr Philip og hann varð 190 sm á hæð. Hann stóð sig vel í undirbúningsnáminu og var tekinn í læknisfræði í Boston University. Megan fékk ekki nærri því eins góðar einkunnir og hann og komst því ekki inn þar en fékk inngöngu í lítinn háskóla, St. Kitts í Karabíska hafinu. Hún vildi ekki fara frá Philip og því lagði hún læknisdrauminn á hilluna og þau fluttu saman í litla lúxusíbúð í HighPoint Apartments í Quincy nærri Boston.

Megan var ekki í námi og atvinnulaus og varð Philip því að standa undir greiðslu húsaleigunnar sem nam sem svarar til um 200.000 íslenskum krónum á mánuði.

Undirbjuggu brúðkaup

Philip bað Megan um að giftast sér og svarið olli honum ekki vonbrigðum. „Auðvitað vil ég giftast þér,“ svaraði hún. Hún byrjaði strax að undirbúa brúðkaupið og pantaði brúðarkjól frá Vera Wang. Brúðkaupsdagurinn var ákveðinn 14. ágúst 2009 og þau bókuðu íburðarmikinn og dýran sal í Long Branch í New Jersey. Vefsíðan Megan-Phillip.com var stofnuð þar sem þau birtu óskalista yfir gjafir og söfnuðu peningum fyrir brúðkaupsferðinni.

Megan sökkti sér niður í brúðkaupsundirbúninginn og hafði ekki hugmynd um að Philp varð í sífellu að taka lán til að geta greitt leigu, mat, námið og annað. Hann byrjaði að stunda spilavíti í þeirri von að geta aflað sér peninga þar en í staðinn hrúguðust spilaskuldir upp. Megan vissi ekki um þetta og þetta var ekki það eina sem hún vissi ekki um.

Ránið og morðið

Þann 10. apríl 2009 varð fylgdarkonan og nuddarinn Trisha Leffler fyrir árás og hún rænd á lúxushótelinu Westin Copley Hotel. Hún hafði komið til Boston frá Las Vegas og auglýst á Craigslist að hún byði upp á erótískt nudd á hótelinu. Maður að nafni „Andy“ setti sig í samband við hana og þau sömdu um nudd. Hún sagði að hann hefði síðan ógnað sér með skammbyssu í hótelherberginu og neytt hana til að leggjast á gólfið. „Hann batt mig fasta við baðherbergishurðina. Hann tók nærbuxurnar, sem lágu á gólfinu, og spurði hvar veskið mitt væri,“ sagði hún í yfirheyrslu. Hann tæmdi síðan veskið hennar, tók greiðslukortin og eyddi síðan símanúmerinu sínu úr símanum hennar.

Fjórum dögum síðar fannst fylgdarkonan Julissa Brismann látin á lúxushótelinu Boston Copley Marriot. Hún hafði verið rænd og skotin til bana. Greinilegt var að hún hafði barist við morðingjann en hún var 165 sm og 47 kíló. Í tölvu hennar fann lögreglan tölvupóstsamskipti á milli hennar og viðskiptavinar frá Craiglist. Sá var með netfangið amdpm@live.com. Netfangið hafði verið stofnað tveimur dögum fyrir morðið. Í gegnum það höfðu Julissa og „Andy“ sammælst um stund og stað.

Julissa Brissman. Mynd:Lögreglan

Tveimur dögum eftir þetta var ráðist á nektardansmeyna Cynthiu Melton á Holiday Inn Express í Warwick. Hún sagði árásarmanninn vera hávaxinn og ljóshærðan. Þau höfðu sammælst um að hittast í gegnum Craigslist. Hann stal nærbuxum hennar og neyddi hana til að liggja á gólfinu á meðan hann reyndi að kefla hana. Hún hristi höfuðið svo mikið að hann gafst upp á því og batt hendur hennar fyrir aftan bak. Í yfirheyrslu sagði hún að hann hefði verið mjög taugaóstyrkur þegar hann leitaði að peningum og greiðslukortum í hótelherberginu. „Ekki vera hrædd, ég drep þig ekki. Láttu mig bara fá peningana þína,“ sagði hann. Eiginmann Julissa, sem var einnig á hótelinu, grunaði að eitthvað væri að og sparkaði dyrunum að herberginu upp. Þá horfði hann beint inn í byssuhlaup. Ræninginn komst undan á hlaupum.

Grunsemdir

Það vakti athygli lögreglunnar að ræninginn hafði stolið nærbuxum Julissa og tengdu hann því við önnur álíka mál á hótelum í borginni dagana á undan. Á upptökum úr eftirlitsmyndavélum sást hávaxinn ljóshærður maður, með derhúfu og í svörtum jakka, flýta sér út af hótelinu. „Við erum að tala um mann sem drepur hiklaust. Við sjáum einkenni verðandi raðmorðingja hér,“ sagði Edward F. Davis, lögreglustjóri, á fréttamannafundi.

Lögreglan komst fljótlega að skilaboðin, sem voru send í gegnum Craigslist, í þessum þremur málum höfðu verið send frá sömu IP-tölunni í HighPoint Apartments í Boston. Lögreglan aflaði sér upplýsinga um íbúa hússins og síðan var leitað á Facebook til að finna íbúa sem væri hávaxinn og ljóshærður. Síða Philip varð fljótlega á vegi þeirra. Eftir að hafa aflað sér ljósmynda af honum voru lögreglumenn sannfærðir um hann væri maðurinn sem sást á upptöku eftirlitsmyndavélarinnar. Því var byrjað að fylgjast með honum allan sólarhringinn. Kvöld eitt var hann eltur í verslun. Þegar hann hafði yfirgefið hana lagði lögreglan hald á allt það sem hann hafði snert þar inni. Þannig var fingrafara hans aflað. Í ljós kom að þau pössuðu við fingraförin sem fundust á Holiday Inn Express.

Handtakan

Þann 20. apríl sáu lögreglumenn að Philip og Megan yfirgáfu heimili sitt og voru með ferðatösku. Þau ætluðu í spilavíti í Connecticut en þangað hafði Philip farið 19 sinnum síðasta mánuðinn. Lögreglan óttaðist að þau ætluðu að stinga af og því var akstur þeirra stöðvaður utan við Boston og Philip handtekinn. Á skóm hans var blóð og sýndi rannsókn á því að það var úr Julissa Brisman.

Blóð var á skóm Philip. Mynd:Lögreglan

Þau voru flutt á lögreglustöð þar sem þau voru yfirheyrð. Að því loknu fóru lögreglumenn heim til þeirra og þar mætti þeim skelfileg sjón þegar rúminu þeirra var lyft upp. Þar undir var skammbyssa falin í bók. Byssukúlur af sömu tegund og fundust í líki Julissa. Bönd af sömu tegund og voru notuð til að binda konurnar þrjár. Límband svipað því og var notað á Trisha. Fartölva með tölvupóstsamskiptum Phili og Julissa. Ónotaðir farsímar sem ekki var hægt að rekja. Undir dýnunni voru 16 nærbuxur geymdar í sokkum. Fjórar þeirra tilheyrðu Trisha og Cynthia. Ekki tókst að finna út af hverjum hinar 12 voru. Lögreglan taldi því líklegt að Philip hefði rænt fleiri fylgdarkonur sem hefðu ekki þorað að tilkynna það af ótta við að verða handteknar.

Byssuna faldi hann í bók. Mynd:Lögreglan

 

Philip þvertók fyrir að vita nokkuð um málin en var úrskurðaður í gæsluvarðhald og sendur í Nashua Street öryggisfangelsið í Boston en þar átti hann að dvelja þar til réttarhöldin hæfust í júní 2010. Hann átti ekki möguleika á að verða látinn laus gegn reynslulausn. Lögmaður hans færði honum þau tíðindi og að hann hefði verið rekinn úr námi og íbúðinni í HighPoint. Að auki hafði Megan yfirgefið Boston og eytt brúðkaupsvefsíðu þeirra. Nokkrum dögum síðar heimsótti Megan hann í fangelsið og sagði að brúðkaupinu væri aflýst og sambandi þeirra lokið. Í kjölfarið reyndi Philip að svipta sig lífi en það var í annað sinn sem hann reyndi það í fangelsinu. Hann var því settur undir sólarhringseftirlit. 15. ágúst 2009, daginn sem brúðkaupið átti að fara fram, fannst hann látinn í fangaklefa sínum. Á vegginn hafði hann skrifað „Megan“ með blóði.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum

Fundu 76 barnslík – Bringan hafði verið skorin upp á þeim öllum
Pressan
Í gær

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði

Hakkarar frá Norður-Kóreu eru sérstaklega stórtækir á einu sviði
Pressan
Fyrir 2 dögum

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn

Íbúarnir eru ósáttir við jólasveininn
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“

Hrópaði á föður sinn í dómsal: „Þú munt deyja eins og hundur!“
Pressan
Fyrir 4 dögum

Luigi ákærður fyrir hryðjuverk – „Morð sem var ætlað að valda skelfingu“ 

Luigi ákærður fyrir hryðjuverk – „Morð sem var ætlað að valda skelfingu“ 
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rex Heuermann ákærður fyrir sjöunda morðið – Hin látna fannst bæði í Manorville og við Gilgo-ströndina

Rex Heuermann ákærður fyrir sjöunda morðið – Hin látna fannst bæði í Manorville og við Gilgo-ströndina
Pressan
Fyrir 6 dögum

Óhugnanlegt innihald plastpoka – Lögreglan segir málið mjög óvenjulegt

Óhugnanlegt innihald plastpoka – Lögreglan segir málið mjög óvenjulegt
Pressan
Fyrir 6 dögum

Skelfilegt val móður – „Ég varð að velja hvorum syni mínum ég vildi bjarga“

Skelfilegt val móður – „Ég varð að velja hvorum syni mínum ég vildi bjarga“