Pútín hefur margoft hótað því að grípa til kjarnavopna frá því að herlið hans réðst inn í landið í febrúar 2022. Nú síðast bárust fréttir af því í vikunni að Rússar hefðu hafið æfingar vegna notkunar á taktískum kjarnavopnum sem þeir hafa hótað að beita verði tilvist Rússlands ógnað á einhvern hátt.
Selenskíj hefur þó litla trú á því að Rússar muni beita kjarnavopnum þó þeir hafi hótað því.
„Hann er kannski óskynsamur en hann elskar líf sitt,“ segir Úkraínuforseti í viðtali við New York Times.
Í viðtalinu ræðir Selenskíj einnig stuðning NATO við Úkraínu og er hann ómyrkur í máli. Segir hann að Úkraínumenn þurfi meiri stuðning og kallar eftir því að hersveitir NATO aðstoði úkraínska hermenn á vígvellinum í Úkraínu.
Hann fór einnig í persónuleg atriði í viðtalinu og sagðist elska að eyða tíma með tveimur börnum sínum, 11 og 19 ára. Þá þykir honum fátt betra en að lesa góða bók áður en hann dettur í draumalandið á kvöldin. Þegar stríðinu loksins lýkur vill hann gjarnan fá að eyða meiri tíma með fjölskyldunni sinni og hundunum sínum.