fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Pressan

Brandy hvarf að heiman – „Undarleg tilfinning sækir á mig“

Pressan
Laugardaginn 11. maí 2024 22:00

Húsið þar sem Ashley og Jade héldu til. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Carrie Stevens-Rosine vaknaði að morgni 17. maí 2012 vissi hún ekki betur en að upp væri runninn ósköp venjulegur dagur, ósköp svipaður og aðrir dagar í Youngstown í Ohio þar sem hún bjó. En fljótlega tók hún eftir því að dóttir hennar, hin tvítuga Brandy Stevens-Rosine, var ekki heima og bíllinn hennar, blár Kia Rio, var einnig horfinn.

Ekkert heyrðist frá Brandy næstu klukkustundirnar og Carrie fór að hafa áhyggjur af henni því hún var vön að senda henni textaskilaboð en ekkert hafði heyrst frá henni allan daginn.

Carrie hringdi í ættingja og vini Brandy en enginn hafði séð hana né heyrt frá henni. Skoðun leiddi einnig í ljós að hún hafði ekki notað samfélagsmiðlaaðganga sína síðustu klukkustundirnar og það var mjög óvenjulegt fyrir hana.

Áhyggjur Carrie fóru sívaxandi og að lokum tilkynnti hún lögreglunni um hvarf Brandy. Lögreglan taldi hana bregðast of harkaleg við og bað hana um að slaka á og bíða þar til Brandy kæmi heim.

Textaskilaboðin

Þremur dögum síðar komst vinkona Brandy, Krysti Horvat, að því að önnur vinkona Brandy, Reannon, hafði skrifast á við Brandy daginn sem hún hvarf. Reannon hafði ekki sagt neinum þetta því Brandy hafði sagt henni að halda þessu leyndu. En nú hafði hennar verið saknað í þrjá daga og taldi Reannon því rétt að skýra frá þessu.

Þessi textaskilaboð reyndust skipta miklu máli. Brandy hafði nefnilega skrifað heimilisfangið sem hún var á leið til – Drake Hill í nágrannaríkinu Pennsylvania. Skömmu síðar sendi hún tvö skilaboð til viðbótar: „Undarleg tilfinning sækir á mig“ og „Heimilisfangið er ónothæft. Ég sný við og fer heim.“

Þetta voru síðustu lífsmerkin frá henni.

Brandy. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

Krysti sýndi lögreglunni skilaboðin en hún hafði enn engan áhuga á að rannsaka hvarf Brandy. Krysti tók því málið í eigin hendur og ók 120 km að heimilisfanginu sem Brandy sagði „ónothæft“ en það var í Cochranton.

Þegar hún beygði út af hraðbrautinni tóku við sveitavegir og malarvegir sem lágu inn í skóg þar sem langt var á milli húsa. Þegar GPS-tækið hennar sagði henni að hún væri komin á áfangastað var hún við kirkju.

Kirkjan. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

Enginn var í kirkjunni og ljósin voru slökkt. Krysti spurði sjálfa sig hvort það væri þetta sem hafði fengið Brandy til að segja að heimilisfangið væri ónothæft. Hún gekk í kringum kirkjuna og skoðaði nærumhverfið en sá engin ummerki eftir Brandy eða bílinn hennar.

Krysti gafst því upp og ók aftur heim til Youngstown.

Unnustan fyrrverandi

Þegar Krysti skýrði Carrie frá ferð sinni til Cochranton vakti það mikinn áhuga Carrie því fyrrum unnusta Brandy, hin 18 ára Jade Olmstead, bjó þar. Þær höfðu verið saman i eitt ár en sambandinu lauk 2011 þegar Jade sleit því fyrirvaralaust og stal um leið iPod Brandy og 300 dollurum. Þetta fór mjög illa með Brandy.

Gat hugsast að Brandy hefði farið í bíltúr til að hitta fyrrum unnustu sína? Var það kannski þess vegna sem hún hélt ferð sinni leyndri?

Carrie hringdi í Jade sem sagðist ekki hafa heyrt frá Brandy í langan tíma og hefði ekki hugmynd um af hverju hún hefði átt að fara til Cochranton.

Carri hugsaði með sér að það væri of mikil tilviljun að Brandy hefði farið til Cochranton án þess að það væri Jade sem hún ætlaði að hitta. Hún fór því þangað ásamt Krysti til að halda leitinni áfram.

Carrie og Brandy. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

 

 

Þær settu heimilisfangið, sem Brandy hafði sent Carrie, inn í GPS-tækið og að þessu sinni leiddi það þær ekki að kirkjunni, heldur að íbúðarhúsi. Á veröndinni sátu tvær ungar konur. Önnur þeirra var Jade.

Carrie steig út úr bílnum og krafðist þess að Jade segði henni sannleikann. Jade breytti þá sögu sinni og sagði að þær hefðu ætlað að hittast en Brandy hefði ekki komið.

Húsið þar sem Ashley og Jade héldu til. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

 

Carrie trúði henni ekki og byrjaði að æsa sig. Þá kom hin konan á veröndinni, Ashley Barber, sem reyndist vera nýja unnusta Jade. Ashely  var með greinilega áverka og marbletti á líkamanum. Hún stillti sér upp fyrir framan Jade til að vernda hana og var ógnandi í garð Carrie.

Carrie áttaði sig á að það var tilgangslaust að tala við þær og ók aftur heim til Youngstown með Krysti.

Bíllinn fannst

Tveimur tímum síðar var hringt í lögregluna í Cochranton. Kona hafði fundið bíl, sem hún átti ekki, í bílskúrnum sínum og bað lögregluna um að koma á vettvang. En þessi kona var ekki bara einhver kona út í bæ, því þetta var móðir Ashley, nýju unnustu Jade. Bílskúrinn, þar sem hún fann bílinn, tilheyrði húsinu þar sem Carrie hafði rætt við Ashley og Jade tveimur klukkustundum áður.

Þegar lögreglan kom á vettvang sá hún fljótt að þetta var Kia Rio bíll Brandy.

Jade og Ashley voru fluttar til yfirheyrslu og nú kom enn ein útgáfan af hvað hafði gerst þann 17. maí. Þær sögðu að Brandy hafi komið í heimsókn og hafi stoppað í hálfa klukkustund áður en hún fór fótgangandi til að hitta einhvern sem ætlaði að sækja hana. Þær sögðu að Brandy hefði sagt að enginn mætti vita hvar hún væri og þess vegna hafi þær ekki skýrt frá því að bíllinn hennar var í bílskúrnum.

Ashley. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

 

Þegar Carrie kom heim til Youngstown hringdi lögreglan í hana og sagði að bíll Brandy væri fundinn og spurði hvort hún gæti sótt hann. Carrie brá mikið við þetta og hellti sér yfir lögregluna og sagði að Brandy hafi nú verið horfin í sex daga og að hún væri sjálf nýkomin frá húsinu þar sem bíllinn hennar fannst.

En þetta fékk lögregluna ekki til að vilja rannsaka málið og því hringdi Carrie í alríkislögregluna FBI og þar á bæ var tilkynning hennar tekin mjög alvarlega og var staðarlögreglunni sagt að taka málið til rannsóknar.

Lögreglumenn fóru aftur í húsið, þar sem bíllinn fannst, en þegar að var komið var það tómt.

Fundu Jade og Ashley

Lögreglan lýsti nú eftir Brandy, Jade og Ashely með nafni og mynd.

Samdægurs sá lögreglumaður í Cochranton, sem var á leið heim af vakt, tvær ungar konur sem pössuðu við lýsinguna. Hann stoppaði því bíl sinn og ræddi við þær og fljótlega lá ljóst fyrir að þetta voru Ashley og Jade. Hann sá að Jade leið illa og að það var Ashley sem var við stjórnvölinn, hafði orð fyrir þeim. Þær féllust á að koma með honum á lögreglustöðina í yfirheyrslu.

Á meðan þær voru yfirheyrðar fór fjöldi lögreglumanna heim til Ashley og leitaði í húsinu. Engin ummerki um Brandy fundust í húsinu en þegar leitarsvæðið var stækkað fannst svolítið grunsamlegt í hæð bak við húsið.

Í 300 metra fjarlægð frá húsinu var lítið svæði sem skar sig úr. Búið var að hreinsa illgresi af því og dökk mold lá efst. Það var að sjá sem einhver hefði grafið þar.

Svona leit svæðið út. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

 

Lögreglan gróf því svæðið upp og voru réttarmeinafræðingar á vettvangi. Í hinum varfærna uppgreftri fannst mannslíkami. Þetta var Brandy. Hún var blóðug, hafði verið lamin og var látin.

Þeim sem voru að yfirheyra Ashley og Jade var strax gert viðvart um líkfundinn. Þegar Ashely og Jade var skýrt frá því að líkið væri fundið sögðu þær loksins sannleikann.

Frá uppgreftri lögreglunnar. Mynd:How I Caught My Killer» / Disney+

 

 

 

 

 

 

Þær höfðu boðið Brandy í heimsókn. Þegar hún kom, fóru þær með hana út í skóg undir því yfirskini að þær ætluðu að sýna henni svolítið. Þær höfðu áður verið búnar að taka gröf ætlaða Brandy. Þegar þær komu að henni tók Ashley upp skóflu og lamdi Brandy í höfuðið og skall hún til jarðar. Þær pyntuðu hana síðan á meðan hún grátbað þær um að sýna sér miskunn.

Að lokum ýttu þær henni ofan í gröfina, tóku stóran stein og köstuðu í höfuð hennar og mokuðu síðan yfir hana.

Krufningin leiddi í ljós að Brandy var lifandi þegar hún var grafin.

Dagbókin

Eftir þessa játningu voru Ashley og Jade handteknar.

Lögreglumenn fóru nú í saumana á persónulegum eigum þeirra, þar á meðal dagbækur þeirra. Hárin risu á þeim þegar þeir lás hvað þær höfðu skrifað daginn eftir morðið.

Ashley hafði skrifað einhverskonar bréf til Carrie: „Ég drap tuttugu ára gömul mistök þín. Mér hefur aldrei fundist ég eins lifandi. Ég mun gera þetta aftur og aftur. Af hverju ætti ég að ljúga til um þetta? Ég er háð þessu. Mér finnst ég ekki hafa gert neitt rangt, mér finnst ég vera með markmið.“

Ekki var textinn í dagbók Jade huggulegri: „Í gær hófst alveg nýtt líf. Ég fann köllun mína. Nýja fíkn. Finn ég til sektar? Nei, alls ekki. Ég er stolt.“

Til að sleppa við dauðadóm, sömdu þær við saksóknara og játuðu sök. Dómur var kveðinn upp yfir þeim 2013 og voru þær báðar dæmdar í ævilangt fangelsi án möguleika á reynslulausn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar
Pressan
Fyrir 6 dögum

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar
Pressan
Fyrir 1 viku

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár
Pressan
Fyrir 1 viku

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja
Pressan
Fyrir 1 viku

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“
Pressan
Fyrir 1 viku

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband
Pressan
Fyrir 1 viku

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum
Pressan
Fyrir 1 viku

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?