Það voru samtökin Muslim Interaktiv sem skipulögðu mótmælin en í umfjöllun New York Post kemur fram að umrædd samtök séu umdeild og til rannsóknar hjá yfirvöldum í Hamborg vegna öfgahyggju.
Leiðtogi samtakanna, Joe Adade Boateng, sagði á mótmælafundinum að Þýskaland þurfi á „réttlátu kalífadæmi“ að halda til að leiðrétta þær rangfærslur sem birst hafa um hin ýmsu samtök múslima í þýskum fjölmiðlum á undanförnum misserum.
Þýska blaðið Die Welt hefur eftir lögreglunni í Hamburg að 1.100 einstaklingar hafi tekið þátt í mótmælunum um helgina.
Muslim Interaktiv-samtökunum hefur vaxið fiskur um hrygg á undanförnum mánuðum, sérstaklega á samfélagsmiðlum eins og TikTok, þar sem fylgjendum hefur fjölgað mikið að undanförnu. Hafa samtökin meðal annars gagnrýnt þýsk yfirvöld fyrir að styðja stjórnvöld í Ísrael í þeim hörmungum sem ríkt hafa á Gaza undanfarna mánuði.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Muslim Interaktiv standa fyrir fjöldasamkomum í Þýskalandi. Hátt í fjögur þúsund manns komu saman í Hamburg í febrúar á síðasta ári til að mótmæla kóranbrennum í Svíþjóð og þá stóðu samtökin einnig fyrir mótmælum eftir innrás Ísraela á Gaza þann 7. október í fyrra.