fbpx
Mánudagur 06.janúar 2025
Pressan

Er þetta skrýtnasti raunveruleikaþáttur sögunnar? – Þurfti að vera nakinn og lokaður inni í meira en ár

Ritstjórn Pressunnar
Miðvikudaginn 24. apríl 2024 22:00

Tomoaki Hamatsu. Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar Japaninn Tomoaki Hamatsu hóf þáttöku í sjónvarpsþættinum Susunu! Denpa Shōnen árið 1998 átti hann að sögn engan veginn von á því hvað hann átti eftir að ganga í gegnum í þættinum. Hann þurfti að búa einn í íbúð og mátti ekki yfirgefa hana. Þar að auki þurfti hann að vera nakinn. Þetta stóð yfir í 15 mánuði á meðan 17 milljónir manna horfðu á.

Hann mátti ekki kaupa neitt eða hafa neitt með sér en gat unnið ýmislegt í happdrætti. Keppni hans í þættinum átti ekki að ljúka fyrr en hann náði að vinna vinninga að andvirði einnar milljónar jena (um 908.000 íslenskar krónur á gengi dagsins í dag). Það tók hann 335 daga en þá var keppninni þó enn ekki lokið.

Hamatsu er fæddur 1975 og var þegar hann fór í þáttinn með drauma um að gerast grínisti. Hann var þó enn óþekktur en hann er sagður hafa unnið í happdrætti og þannig verið valinn til að taka þátt.

Upplýsingarnar sem hann fékk þegar hann fékk tilkynninguna um að hann hefði unnið voru þó litlar og aðeins kom fram að vinningurinn í happdrættinu væri starf í skemmtanaiðnaðinum sem maður sem gekk með drauma um feril í gríni í maganum tók fegins hendi.

Haldið ekki áfram, brjálaða æska

Titill umrædds þáttar, Susunu! Denpa Shōnen, myndi vera þýddur á íslensku líklega sem Haldið ekki áfram, brjálaða æska eða Hættið, klikkaða unga fólk. Þátturinn hóf göngu sína í japönsku sjónvarpi 1998 og var sýndur í 4 ár.

Í þættinum þurftu keppendur að standast ýmsar áskoranir en sú sem lögð var fyrir Tomoaki Hamatsu og snerist eins og áður sagði um að vinna nógu mikið í happdrætti var kölluð Líf mitt í verðlaunum.

Hamatsu var iðulega kallaður Nasubi sem þýðir einfaldlega eggaldin en andlit hans þótti vera í laginu eins og eggaldin og kynfæri hans voru hulin á sjónvarpsskjánum með mynd af þessari tilteknu jurt.

Hamatsu mátti ekki koma með sín eigin föt í íbúðina og átti því ekki annarra kosta völ en að vera nakinn. Það eina sem var til staðar í íbúðinni var vatn, rafmagn, hiti og tímarit með happdrættismiðunum sem hann þurfti til að geta tekið þátt og eiga möguleika á að vinna nægilega mikið til að ljúka áskoruninni.

Hamatsu gerði ráð fyrir að allt yrði tekið upp, klippt og sýnt síðar en honum var ekki sagt að hann var í beinni útsendingu með eilítilli töf. Þegar þátturinn sló í gegn var ákveðið að sýna beint frá dvöl Hamatsu í íbúðinni án tafa, allan sólarhringinn.

Lifði á afar litlu

Þetta hljómar kunnuglega en sama ár var í Bandaríkjunum frumsýnd leikna kvikmyndin Truman Show sem fjallaði um mann sem vissi ekki að allt líf hans væri í beinni útsendingu. Margir sem horfðu á myndina höfðu eflaust ekki hugmynd um að í Japan væri raunverulega til svona sjónvarpsþáttur.

Hamatsu lifði fyrst um sinn aðallega á vatninu í íbúðinni þar sem hann mátti ekki hafa neinn mat með sér. Hann léttist talsvert áður en hann náði loks að vinna nokkurt magn af sykruðum drykkjum í happdrættinu.

Loks náði hann að vinna stóran poka af hrísgrjónum en gat ekki soðið þau þar sem engin áhöld voru í íbúðinni. Hann þurfti því að borða þau hrá þar til hann náði að sjóða þau í poka sem hann hafði nálægt hellu, á eldavél í íbúðinni, sem logaði á.

Hár hans og neglur uxu óhindrað enda hafði hann ekkert til að snyrta þær og hann hafði heldur ekkert til að þrífa sig með eða til að stytta sér stundir.

Þegar hrísgrjónin kláruðust vann hann hundamat sem varð hans helsta næring og vann einnig tuskudýr sem hann talaði við.

Hann vann hjól sem hann gat breytt í kyrrstætt æfingahjól. Loks vann hann sjónvarp en fékk ekki aðgang að stöðinni sem sýndi þáttinn og gat því ekki vitað að hann væri í beinni útsendingu.

Besti vinningurinn tannkrem og tannbursti

Ánægðastur var Hamatsu þegar hann vann tannkrem og tannbursta en þá höfðu liðið nokkrir mánuðir og hann hafði ekki getað burstað tennurnar síðan hann kom í íbúðina.

Vegna vinsælda þáttarins var hann fluttur í aðra íbúð þar sem utanaðkomandi aðilum hafði tekist að komast að því hvar íbúðin var. Þar vann hann pönnu til að elda hrísgrjón úr nýja hrísgrjónapokanum sem honum hafði tekist að vinna. Síðan vann hann myndbandstæki og Playstation-tölvu sem voru kærkomin til að stytta honum stundirnar.

Þegar hann vann loks vinning sem kom honum yfir milljóna jena markið voru 335 dagar liðnir og hann hélt að hann hefði loksins losnað. Svo var aldeilis ekki. Hann var fluttur til Suður-Kóreu þar sem hann eyddi heilum degi í skemmtigarði og fékk loksins almennilegar máltíðir. Í lok dagsins var hann fluttur í aðra íbúð, sagt að afklæðast og byrja áskorunina upp á nýtt. Tekið var fram að hann þyrfti ekki að gera það en Hamatsu sagðist vera tilbúinn til þess.

Takmarkið var þó minna í þetta sinn. Hann þurfti aðeins að vinna ígildi nógu hárrar upphæðar fyrir flugmiða aftur til Japan á almennu farrými. Þegar það tók of skamman tíma að mati framleiðenda þáttarins varð takmarkið miði á viðskiptafarrými og svo á fyrsta farrými.

Ekki enn búið

Dvölin í Suður-Kóreu tók nokkrar vikur og þá var Hamatsu fluttur aftur til Japan og þá enn eina íbúðina. Nánast án þess að hugsa fór hann úr fötunum en veggir íbúðarinnar hrundu skyndilega og Hamatsu var umkringdur áhorfendum sem fögnuðu honum vel og innilega.

Íbúðin var einfaldlega leikmynd í upptökuveri sjónvarpsstöðvarinnar en Hamatsu hafði enn ekki gert sér grein fyrir að hann væri í beinni útsendingu.

Það þyrmdi svo mikið yfir hann að hann kom ekki upp orði þegar stjórnendur þáttarins settust hjá honum og tjáðu honum að keppni hans í þættinum væri lokið og hann hefði staðist áskorunina.

Alls höfðu liðið 15 mánuðir síðan Hamatsu sté inn í fyrstu íbúðina og hóf þátttöku. Þátturinn sló öll áhorfsmet og Hamatsu sendi síðar frá sér bók um reynslu sína sem endaði ofarlega á vinsældalistum.

Hann sagði 2020 að þátttakan í þættinum hefði tekið mikið á andlega og hann hefði oft hugsað á meðan þessu stóð að einfaldlega væri betra að deyja en að lifa svona.

Það tók tíma fyrir hann að aðlagast venjulegu lífi en hann náði á endanum að skapa sér farsælan feril sem leikari.

Þegar Japanir þurftu eins og margar þjóðir að lifa í einangrun í Covid-19 farlaldrinum kom Hamatsu fram í sjónvarpi og sagði að það væri ekkert mál að vera í einangrun í 1 til 2 mánuði og minnti á að hann hefði upplifað það í 15 mánuði.

Allthatsinteresting.com greindi frá.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald

Maðurinn í Teslunni: Konan fór frá honum um jólin vegna gruns um framhjáhald
Pressan
Fyrir 2 dögum

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu

Nóbelsverðlaunahafi segir auknar líkur á að gervigreind útrými mannkyninu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025

Þetta hefur aspasspákonan að segja um árið 2025
Pressan
Fyrir 3 dögum

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli

Skoskur grínisti sturlaðist á bandarískum flugvelli
Pressan
Fyrir 4 dögum

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS

Árásarmaðurinn fæddur og uppalinn í Bandaríkjunum og þjónaði í hernum – Lögregla skoðar möguleg tengsl við ISIS
Pressan
Fyrir 4 dögum

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?

Dularfulla brúin í Skotlandi – Af hverju stökkva hundar í dauðann þegar þeir koma að henni?