fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Pressan

Lögreglumaður skaut fórnarlamb mannræningja til bana

Ritstjórn Pressunnar
Þriðjudaginn 2. apríl 2024 16:30

Skjáskot/Youtube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögregla í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur birt myndband af atburði sem átti sér stað í september 2022. Þá skaut lögreglumaður óvopnaða 15 ára stúlku til bana, við hraðbraut nærri borginni Hesperia í suðurhluta ríkisins, þegar hún var að flýja undan föður sínum sem hafði rænt henni eftir að hafa daginn áður myrt móður hennar.

Ýmsir fjölmiðlar bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi hafa fjallað um málið og birt myndbandið sem hefur verið breytt með þeim hætti að stúlkan er hulin einmitt í þann mund sem að skot úr byssu lögreglumannsins ríður af og hæfir hana.

Atvikið átti sér stað 27. september 2022. Stúlkan hét Savannah Graziano og á myndbandinu má sjá lögreglumenn króa pallbíl af sem faðir hennar ók, með hana innanborðs. Lögreglumenn sjást skiptast á skotum við föður hennar en Savannah kemst út úr bílnum og sést á myndbandinu krjúpa um stund á bersvæði á milli bílsins og þess lögreglubíls sem næstur er. Nokkrir lögreglumenn skýla sér á bak við lögreglubílinn á meðan þeir skiptast á skotum við föður Savannah. Á myndbandinu sést hún rísa á fætur og ganga í átt að þeim lögreglumanni sem næstur er henni. Sá brást hins vegar við með því að skjóta hana.

„Hættu að skjóta hana“

Faðir Savannah hét John Graziano og var 45 ára. Hann var á flótta undan lögreglunni eftir að hafa myrt barnsmóður sína, Tracy Martinez.

Meðal þeirra fjölmiðla sem fjalla um málið er New York Post.

Með myndbandinu voru birtar hljóðupptökur af talstöðvarsamskiptum lögreglumannanna á vettvangi.

Eftir að Savannah hefur verið skotin heyrist annar lögreglumaður hrópa á þann sem skaut:

„Hættu að skjóta hana. Hann er ennþá í bílnum. Hún er örugg. Hann er í bílnum. Hættu.“

Lögreglan hafði elt bílinn um 113 kílómetra leið þegar Graziano neyddist til að stöðva hann eftir að hafa ekki komist upp brattan vegkant. Hann hóf þá þegar skothríð úr hálfsjálfvirkri byssu.

Þegar Savannah nær að komast út úr bílnum má heyra á hljóðupptökunum lögreglumann kalla í talstöðina:

„Stúlkan er komin út. Hún fór út um farþegadyrnar.“

Lögreglumennirnir voru ekki með búkmyndavélar og því var aðeins umrætt myndband birt, sem tekið var úr þyrlu sem flaug fyrir ofan, og upptökur af talstöðvarsamskiptum.

Sami lögreglumaður og tilkynnti í talstöðina að Savannah hefði komist út heyrist á upptökunum kalla á hana að koma til sín. Hún fór eftir því en af einhverjum ástæðum skaut samstarfsfélagi hans hana.

Fullyrtu að hún hafi virst búin undir átök

Savannah er sögð hafa orðið vitni að því þegar faðir hennar skaut móður hennar til bana sem gat áður en hún dó greint frá því hver morðingi hennar var. Hann mun í kjölfarið hafa tekið dóttur sína með valdi og keyrt á brott.

Eftir að lögreglan skaut Savannah til bana hélt lögreglustjórinn á svæðinu því fram að hún hafi virst vera klædd í sams konar föt og fólk klæðist þegar það býr sig fyrir vopnuð átök, þegar hún nálgaðist lögreglumanninn. Það er hins vegar ekki að sjá á myndbandinu, sem ekki var birt fyrr en fjölmiðlar kröfðust þess á grundvelli upplýsingalaga, að svo hafi verið.

Faðir Savannah lést einnig en hann beið bana eftir skotbardagann við lögregluna.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti

Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn

Hér þarftu að passa töskuna þína og armbandsúr vel – Þjófagengi fara mikinn