Hvarf þotunnar hefur verið sveipað mikilli dulúð og hefur ýmsum kenningum verið varpað fram. Vélin hvarf 40 mínútum eftir flugtak frá Kuala Lumpur í Malasíu og má telja víst að hún hafi hrapað í sjóinn og að allir 239 sem um borð voru hafi farist. En hvar það gerðist og hvers vegna er óvíst.
Bandarískt tæknifyrirtæki, Ocean Infinity, telur sig vita hvar flugvélin hrapaði og hefur boðið malasískum yfirvöldum aðstoð sína. Ljóst er að kostnaðurinn við slíkan leiðangur er mikill en fyrirtækið segir að ekki verði rukkað fyrir leitina ef flakið finnst ekki.
Ocean Infinity telur að vélin hafi hrapað í sjóinn í suðurhluta Indlandshafs. Ocean Infinity tók þátt í leit á svipuðum slóðum árið 2018 en þá bar leitin ekki árangur.
Fyrirtækið segist hafa ný gögn um hvarf vélarinnar og munu fulltrúar yfirvalda í Malasíu nú fara yfir þau og meta trúverðugleika þeirra. Ef ástæða er til að hefja leit að nýju verður leitað samþykkis hjá þinginu til að ganga frá samningum við Ocean Infinity.