Í umfjöllun New York Times er ljósi varpað á samtökin en um er að ræða einskonar undirsamtök ISIS-hryðjuverkasamtakanna alræmdu sem lögðu undir sig stór landsvæði í Sýrlandi og Írak fyrir nokkrum árum.
ISIS-K, (e. Islamic State – Khorasan Province) hefur aðallega verið starfandi í Asíu á undanförnum árum, einkum Afganistan, þar sem markmiðið er að koma Talíbönum frá völdum.
Hreyfingunni hefur vaxið fiskur um hrygg á síðustu mánuðum og í síðustu viku var til dæmis greint frá því að tveir hefðu verið handteknir í Þýskalandi vegna gruns um að hafa ætlað að fremja hryðjuverk í Svíþjóð. Um var að ræða menn frá Afganistan með tengsl við ISIS-K og telur lögregla að þeir hafi ætlað að fremja skotárás við sænska þinghúsið.
Þá er bent á að daginn fyrir árásina í Moskvu hafi samtökin staðið fyrir sjálfsmorðssprengjuárás í Kandahar í Afganistan þar sem yfir 20 fórust.
Í umfjöllun New York Times er haft eftir sérfræðingum á þessu sviði að hugmynd samtakanna sé sú að veikja samskipti Talíbana við bandamenn sína og sýna fram á að yfirvöld í Afganistan geti illa tryggt öryggi fólks.
Í augum ISIS-K ganga Talíbanar ekki nógu langt þegar kemur að því að framfylgja ströngustu túlkunum sjaríalaga. Þeir séu í raun og veru of linir.
Leiðtogar samtakanna voru áður liðsmenn al-Qaida og Talíbana og urðu samtökin til á árunum 2014 til 2015 í Afganistan og Pakistan. Voru samtökin með þeim fyrstu til að lýsa yfir stuðningi við ISIS-hreyfinguna alræmdu.
Hafa samtökin fært út kvíarnar á síðustu árum og hafa það að markmiði að komast til áhrifa á hinu forna Khorasan-svæði sem nær meðal annars yfir svæði þar sem nú er hluti Írans, Túrkmenistans, Úsbekistans, Kirgistan, Tadsjikistan, Pakistan og Afganistan.
Fjórir menn eru í haldi rússnesku lögreglunnar vegna árásarinnar á föstudag og hafa þeir nú verið leiddir fyrir dóm og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.