fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Pressan

Hún var á leið í skólann þegar 18 ára martröð hennar hófst

Pressan
Laugardaginn 23. mars 2024 21:30

Jaycee . Mynd:Lögreglan

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 10. júní 1991 fór Jaycee Lee Dugard, 11 ára, frá heimili sínu í Kaliforníu og gekk áleiðis að stoppistöð skólabílsins. Hún var í uppáhalds bleiku fötunum sínum. Skyndilega var bíl ekið upp að hlið hennar og hélt Jaycee að ökumaðurinn ætlaði að spyrja til vegar. En hann spurði ekki til vegar heldur beindi rafmagnsbyssu að henni og skaut hana svo hún lamaðist. Jarðvegurinn var þakinn furukönglum sem hún datt beint ofan á. Þegar hún rankaði við sér lá hún á grúfu á gólfi bíls og hafði ekki hugmynd um hvað var að gerast. 18 ára martröð hennar var hafin.

Það eina sem hún mundi var að hún hafði komið við furuköngul þegar hún hrundi niður á jörðina þegar hún fékk rafstrauminn í sig. Þetta litla atriði var sem greipt í huga hennar næstu 18 árin.

Ökumaðurinn var Phillip Garrido, dæmdur kynferðisbrotamaður og barnaníðingur. Með honum í för var eiginkona hans, Nancy, sem sat í aftursætinu og hélt Jaycee niðri á gólfinu. Jaycee man lítið eftir ökuferðinni annað en að Phillip sagði: „Ég trúi ekki að við höfum komist upp með þetta,“ og síðan hló hann.

Þau óku 160 km leið að heimili hjónanna þar sem Jaycee eyddi næstu 18 árum. Í garðinum höfðu hjónin komið upp nokkrum skúrum og útihúsum, eitt þeirra var hljóðeinangrað. Jaycee var handjárnuð og skilin eftir ein. Henni var sagt að hundar væru fyrir utan skúrinn og að þeir myndu ráðast á hana. Hún var ein og hlustaði eftir hljóðum frá járnbrautarlestum og flugvélum, einu hljóðin frá umheiminum.

Í viðtali við ABC News 2011 sagði hún: „Þetta var eins og hræðilegast stund lífs þíns, margfölduð með 10. Ég var svo einmana. Ég var svo ein.“

Mamman gafst ekki upp

Hvarf hennar vakti mikla athygli og var fjallað um það víða um heim. Lögreglan komst ekkert áleiðis við rannsókn málsins en móðir Jaycee, Terry Probyn, gafst aldrei upp. Hún ræddi við fréttamenn, skipulagði viðburði og gerði allt sem hún gat til að halda nafni Jaycee á lofti svo fólk myndi ekki gleyma henni.

Hún lét herbergi hennar vera algjörlega ósnert og bað til guðs á hverju kvöldi um að fá dóttur sína aftur.

Einu tengsl Jaycee við umheiminn voru þegar Phillip kom til hennar en hann færði henni mat, vatn og annað sem hún þarfnaðist.  Þegar hún hafði verið viku í haldi, kom hann til hennar, hún var enn handjárnuð,  og sagði henni að hlutirnir myndu breytast. Síðan nauðgaði hann henni. Það varð síðan daglegt brauð næstu árin.

„Það leið ekki sá dagur að ég gréti ekki. Mér leið eins og það myndi aldrei renna upp sá dagur að ég myndi ekki gráta. Eftir töluverðan tíma sagði ég við sjálfa mig að nú gæti ég ekki grátið meira.“

Hér var Jaycee haldið fanginni. Mynd:Justin Sullivan/Getty Images

Þegar hún var spurð hvernig hún hafi farið að því að halda sönsum sagði hún: „Ég var á lífi. Það var enn von. Þú gerir bara það sem þú þarft að gera til að lifa af. Stundum verður maður bara að halda í einhverja von.“

Í gegnum árin komu margir skilorðsfulltrúar á heimil hjónanna til að fylgjast með Phillip sem hafði hlotið refsidóma fyrir kynferðisbrot en þeir fundu Jaycee aldrei.

Nafnlaus

Í 18 ár mátti Jaycee ekki nota nafnið sitt, hvorki segja það né skrifa. Með þessu svipti Phillip hana stórum hluta af sjálfsmyndinni. Eftir töluverðan tíma kynnti hann Nancy, eiginkonu sína, fyrir Jaycee. Hún færði henni bangsa, kakómjólk og Barbiedúkku.

„Ég var svo einmana, ég þurfti á athygli að halda. Ég vildi að henni myndi líka við mig. Mér fannst að ef henni myndi ekki líka við mig þá myndi ég lenda í vandræðum.“

Hún sagði að Nancy hafi beðist afsökunar á því sem eiginmaður hennar hefði gert henni.

„Hún er jafn mikið illmenni og Phillip. Alveg jafn klikkuð.“

Þegar Phillip var stungið í steininn eftir að hann féll á lyfjaprófi sá Nancy um að gæta Jaycee. 1994 færðu hjónin Jaycee heitan mat, þann fyrsta sem hún hafði fengið frá því að henni var rænt, og sögðu henni að þau héldu að hún væri barnshafandi.

Hún eignaðist barnið síðan og var fæðingin erfið. Hún fékk enga læknishjálp. Phillip og Nancy höfðu horft á myndbönd um fæðingar til að læra hvernig þau ættu að taka á móti barninu.

„Hún var svo falleg. Mér fannst ég ekki vera ein lengur. Ég var með eitthvað sem ég átti. Ég var ekki ein. Ég vissi að ég myndi aldrei láta neitt koma fyrir hana. Ég vissi ekki hvernig en ég vissi það,“

sagði Jaycee um dóttur sína.

Þremur árum síðar eignaðist hún aðra dóttur.

Phillip og Nancy Gerrado. Mynd: El Dorado County Sheriff via Getty Images

Nokkrum árum síðar byrjuðu Phillip og Nancy að leyfa henni og stúlkunum að fara út og vera í garðinum. Þegar dæturnar urðu eldri byrjaði Jaycee að kenna þeim hluti sem hún hafði sjálf lært í skóla, þar á meðal stærðfræði og skrift. Stúlkunum var sagt að Phillip og Nancy væru foreldrar þeirra og að Jaycee væri systir þeirra.

Hjónin urðu svo sannfærð um að þau hefðu komist fullkomlega upp með mannránið og önnur níðingsverk sín að þau fóru með mæðgurnar á sumarhátíð þegar Jaycee var 19 ára. Þar voru mörg þúsund manns. Þegar Jaycee var spurð af hverju hún hefði ekki hlaupist á brott sagðist hún hafa eytt miklum tíma í að hugsa um af hverju hún gerði það ekki. Ástæðan hafi verið að hún var of hrædd og fannst hún öruggari hjá hjónunum en í ókunnugum heimi.

Frelsuð

Eftir 18 ár losnaði Jaycee loksins úr prísundinni. Phillip hafði þá farið á skrifstofu lögreglunnar í Kaliforníuháskóla til að sækja um leyfi til að halda trúarsamkomu á háskólasvæðinu. Tvær stúlkur voru með í för. Phillip var beðinn um að koma aftur en lögreglukonuna, sem ræddi við hann, grunaði að ekki væri allt með felldu og ákvað að kanna nafn hans og feril.

Hann kom aftur næsta dag og aftur voru stúlkurnar með í för. Lögreglukonunni þótti þær vera fölar, eins og að þær hefðu ekki verið mikið úti við og einnig fannst henni hegðun þeirra og framkoma undarleg. Ljóst var að Phillip hafði ítrekað brotið gegn skilyrðum reynslulausnar og því var skilorðsfulltrúum tilkynnt um málið. Brot hans fólst í að hann mátti ekki umgangast börn.

Skilorðsfulltrúar fóru heim til hans þennan sama dag og handtóku hann og leituðu í húsinu en fundu aðeins Nancy og móður hennar. Eftir viðræður var Phillip sleppt og honum gert að mæta á fund hjá skilorðsfulltrúa næsta dag. Hann gerði það og var Nancy með í för auk stúlknanna tveggja og Jaycee sem var kynnt sem Allissa. Skilorðsfulltrúarnir ákváðu að aðskilja Phillip frá hinum á meðan þeir væru að sannreyna þetta.

Jaycee neitaði í fyrstu að vera fórnarlamb hans og hélt sig við þá sögu að hún væri Allissa og brást hún illa við spurningum skilorðsfulltrúanna.  Að lokum var kallað á lögregluna. Þá játaði Phillip að hafa rænt Jaycee og nauðgað henni. Þá fyrst byrjaði Jaycee að segja satt frá hver hún væri.

Jaycee Dugard. Mynd: Charles Eshelman/FilmMagic

Jaycee var loksins laus úr prísundinni. Skömmu síðar fékk móðir hennar símtalið sem hún hafði beðið eftir í 18 ár. Dóttir hennar var fundin.

Þegar Jaycee var frelsuð úr prísundinni voru dætur hennar orðnar 15 og 11 ára.

Jaycee skýrði frá reynslu sinni í bókinni „A Stolen Life“ sem kom út 2011. 2016 gaf hún út bókina „Freedom: My Book of Firsts“. Hún býr með dætrum sínum á leynilegum stað.

Phillip Garrido var dæmdur í 431 árs fangelsi árið 2011 og Nancy í 36 ára fangelsi. Jaycee komst að samkomulagi við Kaliforníuríki um bætur vegna málsins og fékk hún 20 milljónir dollara þar sem skilorðsfulltrúar höfðu ekki sinnt starfi sínu sem skyldi þegar þeir litu eftir Phillip.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Fór að reykja og endaði hangandi utan á háhraðalest

Fór að reykja og endaði hangandi utan á háhraðalest
Pressan
Fyrir 2 dögum

Norður-Kórea opnar IKEA – En IKEA hefur ekki opnað í Norður-Kóreu

Norður-Kórea opnar IKEA – En IKEA hefur ekki opnað í Norður-Kóreu
Pressan
Fyrir 3 dögum

Slakar þú best á yfir sönnum sakamálum? – Stórt rautt flagg að mati sálfræðings

Slakar þú best á yfir sönnum sakamálum? – Stórt rautt flagg að mati sálfræðings
Pressan
Fyrir 3 dögum

Óvenjuleg ofnæmiskast – Hnetuofnæmið vaknaði þegar hún stundaði kynlíf

Óvenjuleg ofnæmiskast – Hnetuofnæmið vaknaði þegar hún stundaði kynlíf
Pressan
Fyrir 3 dögum

Viltu léttast? Svona mikla hreyfingu þarf til

Viltu léttast? Svona mikla hreyfingu þarf til
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þessi slæmi morgunvani getur aukið líkurnar á elliglöpum

Þessi slæmi morgunvani getur aukið líkurnar á elliglöpum