fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Pressan

Það sem fannst ekki í gröf 17 ára pilts skelfdi fjölskylduna

Pressan
Laugardaginn 17. febrúar 2024 22:00

Dýnan sem Kendrick fannst í.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Með höfuðið fyrst skreið Kendrick Lamar Johnson, 17 ára, inn i upprúllaða leikfimisdýnuna, sem stóð upp á endann. Hann ætlaði að ná í skó sem lá á botni hennar. Hann var 178 cm á hæð og gatið sem hann skreið inn í var mun þrengra en axlir hans. Hann festist. Allan daginn gengu nemendur og kennarar inn og út en enginn tók eftir neinu óeðlilegu og enginn heyrði hjálparköll. 21 klukkustund síðar fannst Kendrick en þá var hann látinn. Sú klemma sem hann lenti í leiddi til köfnunar að sögn lögreglunnar sem setti þessa kenningu fram.

Blóð hafði runnið úr honum og myndað hring um hann. En skórinn, sem hann ætlaði að ná í, lá hreinn og fínn ofan á blóðpollinum. Fjórum mánuðum síðar lauk rannsókn lögreglunnar með þeirri niðurstöðu að um óhapp hefði verið að ræða. Foreldrar Kendrick voru þessu algjörlega ósammála og töldu að um dráp hefði verið að ræða. Þegar kista Kendrick var grafin upp fjórum mánuðum síðar og opnuð voru þau ekki í neinum vafa. Sonur þeirra hafði verið drepinn.

Kendrick fæddist 10. október 1995. Hann ólst upp í Valdosta í Georgíu ásamt þremur eldri systkinum. Foreldrar hans voru Jacquelyn og Kenneth Johnson. Hann var í Lowndes High School þar sem hann spilaði bæði körfubolta og ruðning með liðum skólans. Vinir hans lýstu honum sem rólegum og góðum pilti. Hann var ekki afburðanámsmaður en stóð sig ágætlega og var bestur í stærðfræði. Hann dreymdi um að verða atvinnumaður í ruðningi.

Kendrick og móðir hans.

10. janúar 2013 skilaði Kendrick sér ekki heim á tilsettum tíma. Móðir hans fór því að leita að honum en fann hann ekki. Um kvöldið tilkynnti hún lögreglunni um hvarf hans. Við tók löng nótt. Þegar morguninn rann upp ók Jacquelyn að skólanum og gaf sig fram við ritara og sagðist hafa tilkynnt um hvarf Kendricks kvöldið áður. Í samvinnu við starfsfólk skólans var byrjað að hengja upp veggspjöld með myndum af Kendrick þar sem lýst var eftir honum. Samtímis byrjuðu nemendur að streyma inn í íþróttasali skólans. Um klukkan 10.30 komu nemendur í öðrum salnum auga á hvíta sokka ofan í leikfimisdýnu sem stóð upp á endann í einu horninu. Dýnan var 183 sm á hæð og 90 sm á breidd. Einn nemandi kíkti ofan í miðju dýnunnar, sokkarnir voru á manneskju. Án þess að hugleiða að hugsanlega væru þeir að spilla sönnunargögnum lögðu nemendurnir dýnuna niður. Sterk og vond lykt gaus upp, blanda af uppköstum, blóði og líki sem var byrjað að rotna. Inni í upprúllaðri dýnunni var Kendrick.

Mikið blóð

Sokkarnir höfðu runnið hálfa leið af fótum hans. Annar handleggurinn lá yfir höfðinu en hinn hvíldi á bringunni. Fótleggirnir voru krosslagðir við ökklana. Við hlið fóta hans lágu skórnir sem hann sást síðast í. Hann hafði verið inn í samanrúllaðri dýnunni í 21 klukkustund, með höfuðið niðri. Greinilegir áverkar voru á líkinu, litlir skurðir á fingrum. Lögreglan taldi að áverkarnir væru eftir dýnuna. „Að hún hefði lamið hann,“ sagði Jacquelyn í samtali við TV2. Blóð hafði runnið úr vitum Kendrick og myndað stóran blóðpoll á gólfinu. Í blóðinu lá skórinn sem lögreglan taldi að hann hefði verið að sækja en á honum var ekkert blóð eins og sjá má á myndum sem CNN birti.

Vafasöm vinnubrögð lögreglunnar

Jacquelyn var í skólanum þegar þetta gerðist. Hún var inni á skrifstofu og heyrði samtal inni hjá námsráðgjafanum þar sem fram kom að lík hefði fundist. „Enginn sagði neitt við mig. Ráðgjafinn stóð bara upp og yfirgaf skrifstofuna. Skólanum var ekki lokað. Nemendur og kennarar gengu bara inn og út allan tímann og skólinn leyfði foreldrum að koma inn til að sækja börn sín,“ sagði hún. Sex klukkustundir liðu þar til lögreglan kallaði eftir réttarmeinafræðingi en lög Georgíuríkis kveða á um að tafarlaust beri að kalla réttarmeinafræðing á vettvang.

Bill Watson, réttarmeinafræðingur, var á vakt þennan dag og í skýrslu sinni gagnrýndi hann lögregluna harðlega: „Ég var ekki látinn vita af andlátinu fyrr en klukkan 15.45. Rannsóknin var léleg ef ekki hörmulega framkvæmd þegar ég kom á vettvang. Þá var búið að færa líkið.“ CNN skýrir frá þessu.

Kendrick var mikill íþróttamaður.

Lögreglan girti vettvang ekki af og lögreglumenn gengu um hann án hlífðarbúnaðar á skóm. Í skýrslu sína skrifaði Watson að hann hafi ekki fengið að vita hver fann líkið eða nákvæmlega hvenær það fannst. „Búið var að spilla vettvanginum og það var ekki hægt að eiga samstarf við lögregluna. Sönnunargögnum var stefnt í enn frekari hættu með því að innsiglaður líkpokinn var opnaður til að sýna föður hins látna líkið. Ég get ekki verið sáttur við hvernig þetta mál var meðhöndlað,“ skrifaði hann og tók einnig fram að honum hafi verið neitað um upplýsingar sem voru nauðsynlegar vegna rannsóknarinnar. „Í besta falli voru þeir óhæfir. Í versta falli var þetta samsæri til að leyna sannleikanum,“ sagði Benjamin Crump, lögmaður Johnsonfjölskyldunnar, síðar.

Storknað blóð fannst á vegg við hlið líksins. Það reyndist ekki vera úr Kendrick og taldi lögreglan ekki ástæðu til að rannsaka það frekar. „Þetta var ekki blóð úr Kendrick. Það virtist ekki tengjast þessu máli. Eftir að hafa rannsakað blóðið nákvæmlega töldu sérfræðingar okkar að það hefði verið þarna um langa hríð. Það virtist ekki vera nýtt,“ hafði CNN eftir Stryde Jones, lögreglumanni. Á vettvangi fannst einnig Nikeskór og grá hettupeysa og var blóð á báðum en samt sem áður var þeim ekki haldið til haga sem sönnunargögnum.

Slys

Þrátt fyrir að réttarmeinafræðingurinn hafi sett stórt spurningarmerki við vinnubrögð lögreglunnar var niðurstaða hans að Kendrick hefði líklega kafnað vegna þeirrar stöðu sem líkami hans var í. Lögreglan komst að þeirri niðurstöðu að hann hefði skriðið ofan í dýnuna til að ná í Adidasskó sem lá neðst. Hinn skórinn lá við hlið dýnunnar. Það var vitað að margir nemendur notuðu leikfimisdýnur til að geyma eigur sínar, til dæmis skó, til að þurfa ekki að greiða fyrir skáp. Kendrick var einn þeirra. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýndu að Kendrick gékk inn í leikfimisalinn klukkan 13.00 þann 10. janúar. Hann fór ekki lifandi út þaðan. Nemendur og kennarar fóru inn og út úr salnum allt fram til klukkan 20 en enginn tilkynnt um neitt óeðlilegt, eins og til dæmis að kallað væri á hjálp.

Kendrick með föður sínum og systur.

Þar sem lögreglan taldi að um hörmulegt slys hefði verið að ræða var rannsókn málsins hætt 2. maí. En Jacquelyn og Kennth voru sannfærð um að sonur þeirra hefði verið drepinn. Í maí fengu þau samþykki dómara fyrir að lík Kendrick yrði krufið á nýjan leik. Þau réðu réttarmeinafræðinginn William R. Anderson, frá Flórída, til verksins. Líkið var grafið upp og Anderson rannsakaði það og krufði.

Önnur niðurstaða

Þegar skýrsla Anderson lá fyrir þremur mánuðum seinna var niðurstaða hans skýr. Kendrick hafði verið ráðinn bani með því að hann var laminn í hægri hlið líkamans við hnakkann, nærri slagæð. Þetta hafði valdið blæðingu sem varð honum að bana. Um öflugt högg var að ræða. „Þetta er óútskýrt og líklegast af völdum manneskju, ekki eitthvað sem hann gerði sjálfur. Þess vegna verður að rannsaka þetta sem morð,“ hafði CNN eftir Anderson. Niðurstaða krufningarinnar staðfesti það sem bráðaliði hafði sagt eftir að lík Kendrick fannst en í skýrslu hans stóð að hann hefði verið með áverka á hægri hlið líkamans, við hnakkann.

Það sem fannst ekki í gröfinni

En það sem skelfdi fjölskyldu Kendrick mest var það sem fannst ekki í kistunni þegar lík hans var grafið upp. Þá vantaði öll innri líffærin í líkamann en þeirra í stað var búið að setja samankrumpuð dagblöð. Þetta hamlaði auðvitað rannsókn Anderson mikið.

Lögmaður fjölskyldunnar Benjamin Crump, sem hefur meðal annars unnið að málum George FloydBreonna Taylor og Ahmaud Arbery fyrir aðstandendur þeirra, sagði í samtali við CBS News að svo virtist sem reynt hafi verið að fela eitthvað. „Ef þú horfir rökrétt á þetta þá er eins og um samsæri sé að ræða til að leyna sannleikanum um hvað kom fyrir Kendrick og hver átti sök á því,“ sagði hann.

Leiði Kendrick.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við CBS News að líffærin hafi verið sett í lík Kendrick áður en það var sent til útfararstofunnar, það sé alltaf gert. Watson réttarmeinafræðingur, sem framkvæmdi fyrstu krufninguna, sagði hins vegar að líffærin hafi verið komin svo langt áleiðis í rotnunarferli sínu að þeim hafi verið hent áður en líkið var sent til útfararstofunnar. Hjá útfararstofunni var tekið undir orð Watson um að líffærin hafi ekki verið í líkinu þegar það kom þangað. En það er hins vegar óvenjulegt að dagblaðapappír sé settur í lík.

Upptökur vantaði

Í nóvember 2013 fékk CNN afhentar upptökur úr eftirlitsmyndavélum skólans eftir að hafa fengið úrskurð dómstóls um að skólanum bæri að afhenda þær. Sérfræðingur var ráðinn til að fara yfir upptökurnar sem voru 290 klukkustundir úr 36 myndavélum. Niðurstaða hans var að upptökur vantaði frá fjórum vélum og að um nokkrar klukkustundir af myndefni væri að ræða. Vélarnar voru allar í leikfimisalnum.

Eftir að þetta kom í ljós var ákveðið að ný rannsókn yrði gerð á málinu. Fjölskylda Kendrick vonaðist til að nú myndi morðrannsókn hefjast en því var hafnað og málið aftur lagt til hliðar.

Sumarið 2014 höfðuðu foreldrar Kendrick mál á hendur skólanum og sögðu að hann hefði verið lagður í einelti af bræðrum og að skólinn hefði ekki gripið inn í þrátt fyrir beiðni þeirra um það. CNN segir að í málshöfðuninni hafi komið fram að skólayfirvöld höfðu vitneskju um að ráðist hafði verið á Kendrick í skólanum og að hann hefði orðið fyrir kynþáttaníði og öðrum árásum. Umræddir bræður voru einu nemendurnir í skólanum sem neituðu að ræða við lögregluna. Móðir þeirra, Karen Bell, sagði í samtali við Valdosta Times að yngsti sonur hennar hefði lent í átökum við Kendrick en að andlát hans hefði fengið mikið á bræðurna. Hún sagði að þeir hefðu ekki viljað ræða við lögregluna þar sem lögmaður þeirra hefði ráðið þeim frá því. Foreldrar Kendrick hafa sakað föður piltanna, alríkislögreglumanninn Rick Bell, um að hafa hvatt syni sína til að myrða Kendrick og telja að hann hafi haft áhrif á skólayfirvöld og önnur yfirvöld til að fá þau til að leyna sönnunargögnum.

Málið er enn óupplýst.

 Byggt á umfjöllun CNNCBS NewsHuffington PostTV2Forensic Dimensions og fleiri miðla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Dýrasti banani heims? – Banani á vegg seldist fyrir tæpar 900 milljónir á uppboði

Dýrasti banani heims? – Banani á vegg seldist fyrir tæpar 900 milljónir á uppboði
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þingkona úr innsta hring Trump hótar flokksfélögum hefndum ef þeir kyssa ekki vöndinn – „Þá skulum við birta ALLT“

Þingkona úr innsta hring Trump hótar flokksfélögum hefndum ef þeir kyssa ekki vöndinn – „Þá skulum við birta ALLT“
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hvíthákarl varð manni að bana

Hvíthákarl varð manni að bana
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann

Þótti dóttirin vera „of falleg til að geta verið dóttir hans“ – DNA-próf afhjúpaði ótrúlegan sannleikann