fbpx
Laugardagur 27.júlí 2024
Pressan

Sluppu naumlega úr klóm Gilgo-raðmorðingjans og deila hrottalegri reynslu sinni – „Guð hjálp, einhver, hann ætlar að drepa mig“

Pressan
Mánudaginn 12. febrúar 2024 12:45

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Arkitektinn Rex Heuermann situr í gæsluvarðhaldi á Long Island í Bandaríkjunum, grunaður um að vera hinn alræmdi Gilgo-strandar raðmorðingi. Heuermann var handtekinn síðasta sumar og hefur hann verið ákærður fyrir morð fjögurra kvenna sem fundust látnar á ströndinni fyrir rúmum áratug síðan. Málið hefur vakið gífurlega athygli, enda ekki á hverjum degi sem meintur raðmorðingi er dreginn fyrir dóm.

Nú hefur kona nokkur stigið fram og greint frá því að hafa naumlega sloppið undan þessum meinta raðmorðingja. Kona þessi leitaði til lögmannsins John Ray, en Ray hefur tekið að sér hagsmunagæslu fyrir aðstandendur Shannan Gilbert og fleiri kvenna sem fundust látnar á Gilgo-ströndinni samhliða meintum fórnarlömbum Heuermann, en alls fundust líkamsleifar ellefu einstaklinga á svipuðu svæði við Gilgo-ströndina en Heuermann hefur aðeins verið ákærður fyrir að bera ábyrgð á andláti fjögurra þeirra. Ray telur ljóst að Heuermann beri ábyrgð á öllum andlátunum og að lögregla hafi ekki staðið sig við rannsóknina. Telur Ray eins að fjölskylda Heuermann eigi einhverja sök í málinu, þar á meðal eiginkona Heuermann, Ása Guðbjörg Ellerup, en rétt er að taka skýrt fram að lögmaður Ásu, lögmaður barna hennar sem og saksóknari hafa vísað því á bug.

Fékk kvíðakast og hágrét

Nýlega hélt Ray blaðamannafund þar sem hann uppljóstraði að fjöldi meintra vitna hefði sett sig í samband við hann. Nú er komið á daginn að eitt þeirra er kona sem starfaði árið 2010 sem flöskubarn á skemmtistaðnum Gold Club í Philadelphiu. Konan kallar sig Taylor en gefur ekki út ættarnafn. Hún segir að á þessum tíma hafi hún aðeins verið 18 ára gömul. Þegar hún var við vinnu hafi vikið sér að henni lágvaxinn maður með brúnt hár og skalla. Hann gaf henni kókaín og bauð henni vinnu þar sem hún gæti þénað gífurlegar fjárhæðir. Ef hún kæmi með honum myndi hún þéna mun meira en hefðbundið flöskubarn. Taylor var á þessum tíma virkur fíkill og tók vel í þetta boð. Hún fylgdi þessum manni á annan stað, íbúð í háhýsi, og þar fékk hún meira af fíkniefni og lágvaxni maðurinn sagði henni að félagi hans, John væri á leiðinni.

Vinna Taylor ætti að felast í því að skemmta þessum manni í nokkra klukkutíma og fá hann til að kaupa fíkniefni. Maðurinn afhenti Taylor svo rafbyssu sem hún gæti notað ef á þyrfti að halda.

Umræddur John mætti svo á svæðið og tók Taylor strax eftir því að hann var tröllvaxinn. Hann virtist vera á fimmtugsaldri og var með stutt brúnt hár. Eftir að fréttir bárust af handtöku Heuermann síðasta sumar hafi hún strax fengið áfall. Hún fékk kvíðakast og hágrét enda þótti henni ljóst að Heuermann væri í raun þessi John sem hún hafði hitt fyrir rúmum áratug.

Dauðhrædd og þakklát fyrir rafbyssuna

Þetta örlagaríka kvöld árið 2010 fór Taylor með þessum John í leigubíl sem ók þeim til New Jersey. Á ferðinni kom John með ítrekaðar kynferðislegar athugasemdir um konur sem þau óku framhjá. Svo komu þau að gistiheimili þar sem John bókaði herbergi. Þar lagðist hann á rúmið og þau spjölluðu um stund.

„Ég reyndi að halda samræðunum gangandi svo ég þyrfti ekki sofa hjá honum,“ sagði Taylor í skýrslu sinni sem lögmaðurinn Ray hefur deilt. Hún hafi gengið um gólf í herberginu til að komast hjá því að John snerti hana. Á meðan bað John hana að segja sér frá sínum „yngstu vinkonum“ áður en hann hélt þrumuræðu um draumóra sína sem byggðust á barnaníði og beindust bæði að ungum stúlkum og drengjum. Eftir smá stund rauk John á fætur og sagði að þau yrðu að fara. Þau pöntuðu leigubíl og John tók mikið af reiðufé út úr hraðbanka. Síðan fóru þau í íbúð í ónefndri blokk þar sem Taylor fór að óttast um líf sitt. Þarna voru engin húsgögn, dimmt og drungalegt. Í borðstofunni voru tveir garðstólar fyrir framan sjónvarp þar sem klám var í gangi. Taylour heyrði líka hljóð sem bentu til að hún og John væru ekki ein.

Hún varð hrædd og reyndi að forða sér á hlaupum. John rauk á eftir henni og meinaði henni útgöngu. Taylor tók þá upp rafbyssuna og öskraði á John að gefa sér peningana og leyfa sér að fara. Hann varð á endanum við því og hún þaut á næstu lestarstöð og beint heim. Hún sagði svo starfi sínu á skemmtistaðnum umsvifalaust lausu enda ætlaði hún ekki að hætta á að þessi maður hefði upp á henni.

„Ég gef þessa skýrslu því ég trúi því að minn sannleikur geti hjálpað málum fórnarlamba Long Island raðmorðingjans,“ segir Taylor í skýrslu sinni.

Andlitið geislaði af hatri

Auk framburðar Taylor lagði Ray fram sögu konu sem kallar sig Mary Poe, en það er dulnefni. Hún segist hafa lent í ógnvekjandi aðstæðum með manni sem hún segir vera Heuermann. Poe segist hafa unnið við vændi árið 1994 í Manhattan. Nótt eina hafi maður í hvítum sendibíl vikið sér að henni og spurt hvað hún rukkaði fyrir munnmök. Hún svaraði að gjaldið væri á bilinu 4-7 þúsund. Maðurinn sætti sig við það og hún settist upp í bíl til hans. Þar spurði maðurinn hvert þau gætu farið og Poe benti honum á afvikinn stað þar sem hann gæti lagt bílnum og fengið þjónustu hennar. Á leiðinni talaði Poe um að hún elskaði vinnuna sína en þá skyndilega heyrði hún mikinn hvell vinstra við sig.

„Ég fann lykt af byssupúðri. Ég sneri mér að honum og sá að hann beindi að mér byssu á meðan hann keyrði“

Poe varð frá sér af hræðslu og reyndi að grípa í höndina á manninum, kastaði sér á hann til að reyna að komast úr framsætinu. Byssan féll við þetta út um gluggann og Poe segist hafa áttað sig á því að hún væri að berjast fyrir lífi sínu. Hún öskraði út um gluggann „Guð hjálp, einhver, hann ætlar að drepa mig“

Hún grátbað manninn að hleypa sér út og reyndi að ná bíllyklunum af honum. Hann negldi niður á bensíngjöfina, en Poe tókst að rúlla sér út úr bílnum. Ekki fór það betur en svo að í kjölfarið ók maðurinn yfir fót hennar og stakk svo af út í myrkrið.

Poe fann þá að blóð lak niður bak hennar og áttaði sig á því að skotið hafði hæft hana. Kollegar hennar komu að henni og hringdu á sjúkrabíl. Sem betur fer reyndist skotsárið yfirborðskennd og þurfti aðeins að sauma fáein spor.

Hún segir að maðurinn í bílnum hafi verið tröll að vexti. Hann hafi verið í flónel skyrtu og dökkum stuttermabol. Hann var með þykkt og mikið skegg sem gæti þó hafa verið dulargervi.

„Þegar ég sá Rex Heuermann í sjónvarpinu þá þekkti ég hann strax sem þennan mann. Hann var með hvöss blá augu og andlit hans geislaði af hatri.“

Áður hafði Ray leitt fram tvær konur sem sögðust hafa lent í Heuermann á þeim tíma sem Gilgo-fórnarlömbin voru myrt. Rétt er að taka skýrt fram að Ray er ekki hluti af því sakamáli sem höfðað hefur verið gegn Heuermann heldur er að berjast fyrir því að Heuermann verði látinn svara fyrir alla sem fundust látnir á þessu svæði sem og að tekið verði til skoðunar hvort að fórnarlömbin séu fleiri, jafnvel í öðrum ríkjum Bandaríkjanna þar sem vitað er að Heuermann dvaldist langdvölum.

Verjandi Heuermann, lögmaður Ásu Guðbjargar og lögmaður barna þeirra hafa öll sakað Ray um athyglissýki. Hann hafi ginkeypt frásagnir kvenna sem séu að leita sér að skjótfengnum gróða, enda fjölmiðlar líklega tilbúnir að borga fúlgur fjár fyrir frásaganir kvenna sem hafi sloppið með skrekkinn frá raðmorðingja.

The Sun greinir frá. 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar

Ævintýraferðin breyttist í martröð – Hjónin fundust látin í björgunarbát sex vikum síðar
Pressan
Fyrir 6 dögum

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar

Sakamál: Hryllingur í smábæ – Dóttirin stumraði yfir líki móður sinnar
Pressan
Fyrir 1 viku

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár

Einn eftirlýstasti strokufangi Bandaríkjanna sigldi undir fölsku flaggi í 30 ár
Pressan
Fyrir 1 viku

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja

Árásarmaðurinn ætlaði sér ekki að deyja
Pressan
Fyrir 1 viku

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á tímann samkvæmt nýrri rannsókn – „Þetta er vitnisburður um alvarleika loftslagsbreytinga“
Pressan
Fyrir 1 viku

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband

Ökumaður Teslubifreiðar lenti í árekstri og missti stjórn á bílnum í kjölfarið – Sjáðu magnað myndband
Pressan
Fyrir 1 viku

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum

600 ára gamall texti líkist vel þekktum texta frá síðari tímum
Pressan
Fyrir 1 viku

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?

Er leitinni að Plánetu níu að ljúka?