Ísinn á Grænlandi er að bráðna tuttugu prósent hraðar en áður var talið sem hefur orðið til þess að landið sjálft er að rísa.
Þetta hafa tvær nýjar rannsóknir leitt í ljós en ástæða þessa er að bráðnunin léttir þrýstingi af bergi sem verður til þess að Grænland er að ná aukinni hæð.
Fjallað er um þetta á vefnum All That´s Interesting.
Bráðnunin hefur staðið yfir síðustu 11.700 ár en hefur aukist gríðarlega á síðustu árum vegna loftslagsbreytinga. Heildarmagn íss í Grænlandsjökli, minni jöklum og ám, sem er að bráðna, er 20 gígatonn á ári en 1 gígatonn er jafn mikið og 1 milljarður tonna.
Auk þess að léta þrýstingnum af berginu skilar bráðnunin fersku vatni í hafið sem getur haft áhrif á strauma og hitastig sjávar.
Jöklafræðingurinn Chad Greene sem fór fyrir annarri rannsókninni segir nánast alla jökla Grænlands hafa hopað síðustu áratugi og ekkert hafi hægst á því ferli.
Rannsóknin sem hann stýrði byggði á greiningu gervihnattamynda frá árunum 1985-2022 og um 200.000 athugunum á jöðrum jökla um allt Grænland.
Þessar athuganir leiddu í ljós að síðan 1992 hafa fimm trilljónir tonna af ís bráðnað á Grænlandi. Ein trilljón er þúsund milljarðar.
Til að setja þetta í samhengi, ef allur þessi ís sem bráðnað hefur síðan 1992 væri settur í einn ísmola næði hann yfir stærra svæði en Manhattan-eyja í New York og upp í meiri hæð en Mount Everest, hæsta fjall heims.
Þessi mikla bráðnun hefur eins og fyrri rannsóknir hafa leitt í ljós haft þær afleiðingar að yfirborð sjávar hefur hækkað en önnur áhrif en það eru m.a. að landrisið á Grænlandi er um það bil 7,6 millimetrar á sumum svæðum á ári.
Landris á Grænlandi hefur mælst allt að 20 sentimetrar á síðustu 10 árum.
Bráðnunin hækkar ekki bara yfirborð sjávar heldur geta hafstraumar í Norður-Atlantshafi raskast og hitastigið í hafinu í Evrópu og Norður-Ameríku breyst. Þar með talið við strendur Íslands.