Eins og greint var frá um helgina hefur uppreisnarhópurinn Hayat Tahrir al-Sham náð völdum í Sýrlandi og er forsetinn Bashar al-Assad flúinn land og kominn til Moskvu.
Sýrlandsstjórn er talin hafa fangelsað þúsundir manna í Saydnaya-fangelsinu en undir því munu vera fjölmargir fangaklefar og hvelfingar sem geyma fanga. Hafa viðbragðsaðilar áhyggjur af því að þeir sem þar dvelja gætu hreinlega kafnað ef þeim verður ekki komið til bjargar.
Talið er að í umræddu fangelsi hafi pyntingar og aftökur farið fram á undanförnum árum.
Hvítu hjálmarnir, mannúðar- og björgunarsamtök sem stofnuð voru árið 2013, hafa sent fjölmennt lið á svæðið en samtökin greindu frá því á síðu sinni á samfélagsmiðlinum X í gærkvöldi.
Í umfjöllun Mail Online kemur fram að hvelfingar undir fangelsinu séu harðlæstar og það þurfi þar til gerðan búnað til að opna þær. Óvíst er hversu margir dvelja í neðanjarðarhvelfingunum en talið er að þeir séu mögulega nokkur þúsund.
Mannréttindasamtökin Amnesty International segir að fjölmargir hafi verið teknir af lífi í Saydnaya á undanförnum árum, eða allt að 13 þúsund á árunum 2011 til 2016 þegar borgarastyrjöldin í landinu stóð sem hæst.
The White Helmets has deployed 5 specialized emergency teams to Sednaya Prison to investigate hidden underground cells, reportedly holding detainees according to survivors. The teams consist of search and rescue units, wall-breaching specialists, iron door-opening crews, trained…
— The White Helmets (@SyriaCivilDef) December 8, 2024