Þetta átti sér stað í Fort Seven í Ontario í Kanada í síðustu viku. Hjónin fór út úr húsi sínu um klukkan 5 að morgni þriðjudags til að leita að hundunum sínum. Þau sáu þá ísbjörn í innkeyrslunni. Hann gerði sér þá lítið fyrir og réðst á konuna.
Maðurinn brást við þessu með því að stökkva á ísbjörninn til að reyna að koma í veg fyrir að hann réðist á konuna. Ísbjörninn snéri sér þá að manninum og veitti honum áverka á handlegg og fætur. Þeir eru þó ekki lífshættulegir og reikna læknar með að hann nái sér að fullu.
Sky News segir að samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni þá hafi nágranni komið aðvífandi með skotvopn og hafi hann skotið björninn nokkrum skotum. Björninn hörfaði þá inn í skóglendi þar sem hann drapst síðan af völdum áverka sinna.
Sjaldgæft er að ísbirnir ráðist á fólk. Í ágúst urðu tveir ísbirnir starfsmanni í afskekktri ratsjárstöð að bana.
Í rannsókn sem Alaska Science Center gerði 2017 kemur fram að 73 árásir ísbjarna á fólk hafi verið skráðar frá 1870 til 2014. 20 manns létust í þessum árásum en þær áttu sér stað í Kanada, Grænlandi, Noregi, Rússlandi og Bandaríkjunum.