fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Pressan

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Pressan
Mánudaginn 9. desember 2024 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lögreglan í New York leitar enn að skotmanninum sem banaði forstjóra UnitedHealthcare (UHC) í síðustu viku. Á föstudaginn fann lögregla bakpoka í Central Park sem er talinn tilheyra skotmanninum. Greint var frá innihaldi pokans á laugardaginn. Þar fundust hvorki vopn né persónuskilríki heldur Tommy Hilfiger jakki og nokkuð magn af gervipeningum úr borðspilinu Monopoly.

Lögregla hefur nú birt fleiri myndir af meintum skotmanni í von um aðstoð frá almenningi.

NYPD Releases New Images of Suspect in UnitedHealthcare CEO Shooting - The New York Times

Fjölmiðlar hlupu á sig

Bandarískir fjölmiðlar greindu sumir frá því um helgina að lögregla hefði borið kennsl á skotmanninn. Má rekja þær fréttir til ummæla borgarstjórans, Eric Adams. Hann sagði á laugardag að netið væri að þrengjast. Blaðamenn spurðu þá hvort lögregla væri komin með nafn skotmannsins og svaraði Adams:

„Við viljum ekki gefa það upp að svo stöddu. Með því að gera slíkt væri maður í raun að vara manneskjuna sem við leitum við og við viljum ekki gefa honum neitt forskot. Leyfum honum að trúa því áfram að hann geti falið sig á bak við grímu. Við höfum afhjúpað andlit hans og við munum afhjúpa það hver hann er og við munum draga hann til ábyrgðar.“

Þessi ummæli urðu til þess að New York Post sló því upp í fyrirsögn fréttar að lögregla hefði nafnið á skotmanninum en væri að halda því leyndu að svo stöddu. Aðrir miðlar á borð við Reuters vitnuðu svo í fréttina. Fréttunum hefur nú verið breytt og DailyBeast tók fram í gær að lögregla viti ekki enn deili á skotmanninum og segist ekki vita hver hvatinn fyrir morðinu var.

NYPD releases two new photos of suspect in Brian Thompson killing | Brian Thompson shooting | The Guardian

Morðinginn sendir skilaboð

Margir á samfélagsmiðlum telja þó ljóst að morðið tengist starfsemi UHC sem er bæði stærsta tryggingafélag Bandaríkjanna hvað sjúkratryggingar varðar og líka verulega umdeilt. UHC nýtti sér til dæmis gervigreind til að taka afstöðu til tryggingakrafna viðskiptavina. Núna hefur UHC verið stefnt fyrir dóm og því haldið fram að gervigreindin hafi neitað fjölda eldri borgara um heilbrigðisþjónustu með ólögmætum hætti. Samkvæmt stefnu í málinu vissi UHC að gervigreindin hafði rangt fyrir sér í um 90 prósent tilvika en hafi engu að síður haldið áfram að nýta sér þessa tækni. Fyrirtækið hafi treyst því að aðeins brotabrot þeirra sem var neitað um greiðslur myndu leita réttar síns. Umdeildu málin eru enn fleiri og hefur UHC meðal annars verið sakað um ólögmæta viðskiptahætti, innherjasvik og fleira.

Mörgum þykir ljóst að skotmaðurinn var að senda skilaboð með ódæðinu. Hann áletraði skothylki með orðunum deny, defend, depose sem er talin vísun í bók sem lögfræðiprófessorinn Jay M. Feinman gaf út árið 2010. Þar fjallaði hann með gagnrýnum hætti um bandaríska tryggingakerfið sem fórni hagsmunum tryggingataka fyrir gróða. Feinman sagði félögin gjarnan nota aðferðir á borð við að tefja mál, neita lögmætum kröfum og beita svo fjárhagslegum yfirburðum gegn tryggingatökum fyrir dómstólum.

Eins hafi monopoly-seðlarnir líklega verið vísun til viðskiptahátta UHC því tilgangur borðspilsins er að gagnrýna kapítalisma. Eins gætu seðlarnir verið vísun til þess að UHC sé í markaðsráðandi  stöðu sem félagið nýti sér til að féfletta veika Bandaríkjamenn. Réttargeðlæknirinn Carole Lieberman segir í samtali við DailyBeast að seðlarnir sendi skýr skilaboð. „Bæði þau að UnitedHealthcare sé svikari sem stelur peningum af sjúklingum til að greiða framkvæmdastjórum milljónir, og að félagið sé í einokunarstöðu. Hann gæti hafa ætlað sér að dreifa monopoly seðlunum hjá líki forstjórans eftir morðið, en gleymdi að taka seðlana úr bakpokanum.“

Lieberman telur skotmanninn haldinn sjálfsupphafningar-persónuleikaröskun. Hann sé að leika sér að lögreglunni og ætli sér að sanna að hann sé klárari en lögreglan.

Who is Brian Thompson's smiling assassin? Everything we know about the UnitedHealthcare  gunman | Daily Mail Online

Forstjórinn gefur lítið fyrir gagnrýni

Skotmaðurinn hefur undanfarna viku verið hylltur sem hetja á netinu og málið dregið ósanngjarnt fyrirkomulag einkavæðingar í heilbrigðiskerfinu og sjúkratryggingum í sviðsljósið. Margir sögðust vona að morðið boðaði breytta og manneskjulegri starfsemi tryggingafélaga. Forstjóri móðurfélags UHC, UnitedHealth Croup, ávarpaði starfsfólk sitt þremur dögum eftir morðið. Forstjórinn, Andew Witty, sagði starfsfólki að hann væri stoltur af starfsemi UHC í þágu fólks í neyð og að fyrirtækið muni halda ótrautt áfram. Hann bað starfsfólk að leiða hjá sér neikvæða umræðu um fyrirtækið.

„Hún endurspeglar ekki raunveruleikann. Þetta er bara merki um þá tíma sem við erum nú að lifa.“

Raunin sé að Bandaríkin þurfi fyrirtæki eins og UHC.

UnitedHealthcare CEO Brian Thompson Shooting: Investigation Update

Hetjusöngvar, fatnaður og eftirhermukeppni

Mikil þórðargleði hefur ríkt í netheimum frá morðinu og hafa jafnvel hetjusöngvar verið samdir um skotmanninn sem er kallaður réttlætisriddari, Hrói höttur og Tjónafulltrúinn (e. Adjuster). Um helgina fór meira að segja fram eins konar eftirhermukeppni í Central Park þar sem fólk klæddi sig upp sem skotmanninn. Bolir eru nú seldir á netinu með áletruninni sem fannst á skothylkjunum og tugir þúsunda hafa boðið skotmanninum aðstoð sína ef hann vantar fjarvistarsönnun. Hópar netverja sem hafa mikinn áhuga á glæpum og gjarnan veitt lögreglunni lið í rannsóknum hafa lýst því yfir að þeir ætli ekki að reyna að upplýsa málið. Einn slíkur rannsakandi sagði hreinlega við fjölmiðla: „Við erum frekar áhugalaus um það. Kröfunni um samúðaróskir hefur verið hafnað á þessum bæ.“

Morðinginn gengur enn laus og telur lögregla ljóst að hann sé ekki lengur í New York-borg. Nú eru kafarar að leita að byssunni í tjörnum Central Park ásamt leitarhundum og Alríkislögreglan FBI hefur heitið rúmlega 7 milljónum í laun fyrir þá sem geta veitt upplýsingar um skotmanninn.

Fyrrverandi lögreglustjóri frá Bostin, Ed Davis sem fór fyrir rannsókninni á sprengjunni í Boston maraþoninu árið 2013, segir skelfilvegt að sjá hversu kaldrifjaðir Bandaríkjamenn eru á netinu þessa daganna. „Þetta er stórt vandamál. Það er verulega truflandi hversu mikið fólki skortir samkennd.“

Lögreglan í Atlanta veitir félögum sínum í New York aðstoð en grunur leikur á að skotmaðurinn hafi flúið þangað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi

Vinna í kappi við tímann við að bjarga þúsundum úr sýrlensku neðanjarðarfangelsi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni
Pressan
Fyrir 2 dögum

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin

5 leiðir til að minnast ástvina þinna um jólin
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum
Pressan
Fyrir 3 dögum

Eru gulir blettir á koddanum þínum? Þeir eru skýr aðvörun

Eru gulir blettir á koddanum þínum? Þeir eru skýr aðvörun
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hversu oft áttu að skipta á rúminu þínu?

Hversu oft áttu að skipta á rúminu þínu?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þetta eru þrír stærstu áhættuþættirnir þegar kemur að heilabilun

Þetta eru þrír stærstu áhættuþættirnir þegar kemur að heilabilun