Karlmaður er í haldi lögreglu í tengslum við morðið á Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare sem var myrtur í Manhattan í síðustu viku. Engin ákæra hefur verið gefin út til þessa en samkvæmt erlendum miðlum var maðurinn handtekinn í Pennsylvaníu og lagði lögregla hald á skotvopn. NBC News greinir frá því að téður maður hafi fundist með skotvopn sem svipar til þess sem banaði Thompson og eins var maðurinn með hljóðdeyfi og fölsuð skilríki í fórum sínum.
Lögreglan hafði afskipti af hinum handtekna eftir að ábending barst frá viðskiptavinum McDonalds sem þótti hann grunsamlegur. Lögreglan í Pennsylvaníu er nú að yfirheyra manninn og munu fulltrúar á vegum lögreglunnar í New York vera á leiðinni.
Ekki hefur fengist staðfest hvort hinn handtekni sé sami maður og lögregla hefur birt myndir af undanfarna daga. Til þessa virðist eina tengingin við málið vera sú að téður maður fannst með skotvopn, hljóðdeyfi og fölsuð skilríki. Skilríkin báru með sér að viðkomandi væri frá New Jersey sem er sambærilegt við þau skilríki sem meintur skotmaður framvísaði þegar hann innritaði sig á farfuglaheimili í aðdraganda morðsins.